Að minnsta kosti einn íbúi í Grenfell-turninum í London sem lifði eldsvoðann mikla af var greindur með blásýrueitrun.
Sú sem um ræðir er hin tólf ára gamla Luana Gomes. Í kjölfar eldsvoðans fékk hún meðferð á sjúkrahúsi vegna eiturgass. Talið er að gasið hafi myndast er plasteinangrun í fjölbýlishúsinu bráðnaði og brann. Móðir hennar og systir fengu einnig meðferð vegna gruns um blásýrueitrun.
Móðirin var ólétt og komin sjö á mánuði á leið er eldurinn kviknaði. Hún missti ófætt barn sitt í kjölfarið.
Í frétt BBC segir að áður hafi komið fram að þrír einstaklingar hafi fengið meðferð vegna gruns um blásýrueitrun. Þetta er í fyrsta skipti sem staðfest er að einn íbúi hússins fékk slíka eitrun.
Andreia Gomes og dætur hennar voru lagðar inn á Kings College-sjúkrahúsið eftir að hafa verið bjargað úr logandi byggingunni. Þær voru svæfðar við komuna þangað, segir í frétt BBC. Móðirin var meðvitundarlaus í fjóra daga, Luana í sex daga og systir hennar, Megan, var haldið sofandi í eina viku.
Í sjúkraskýrslu Luönu segir að hún hafi fengið meðferð vegna reykeitrunar og áverka. Einnig kemur fram að hún hafi verið með blásýrueitrun.
Roger Harrabin, sérfræðingur í umhverfismálum, segir að blásýrueitrun sé nokkuð algeng í eldsvoðum þar sem blásýra sé í mörgu plasti og losni út í andrúmsloftið þegar það brennur.
„Þetta hljómar dramatískt því blásýra er þekkt eiturvopn á okkar tímum,“ segir hann.
Þeir sem fá blásýrueitrun finna fyrir höfuðverkjum, svima, eru ringlaðir og kasta upp. Ef eitrunin er mikil og ekki meðhöndluð getur hún valdið dauða á stuttum tíma. Sérfræðingur sem BBC ræðir við segir að dæmi séu um að fólk deyi innan nokkurra sekúndna.