Sektuð fyrir kynþáttahatur á Airbnb

Eftir atvikið setti Suh tilfinningaþrungið myndband á YouTube.
Eftir atvikið setti Suh tilfinningaþrungið myndband á YouTube. Skjáskot

Airbnb-gestgjafi sem mismunaði asískum gesti hefur verið sektaður um fimm þúsund dollara eða rúmar 500 þúsund krónur. Þá hefur gestgjafanum verið gert að sitja námskeið í asísk-amerískum fræðum.

Tami Barker afbókaði Dyne Suh með eftirfarandi skilaboðum: „Eitt orð segir allt. Asísk.“

Í frétt breska ríkisútvarpsins BBC um málið kemur fram að sektin hafi verið lögð fram á grundvelli nýs samkomulags milli Airbnb og Kaliforníuríkis um aðgang að húsnæði. Með því er hægt að rannsaka gestgjafa sem hafa fengið kvartanir vegna kynþáttafordóma.

Rannsóknir sýna að sumir eigi erfiðara með að bóka herbergi eða íbúðir í gegnum Airbnb vegna kynþáttar síns.

Barker afbókaði Suh stuttu áður en hún átti að koma til Big Bear í Kaliforníu. Í skilaboðum sem hún sendi Suh í gegnum Airbnb-appið sagði hún: „Ég myndi ekki leigja þér það þótt þú værir síðasta manneskjan á jörðinni.“

Síðar sendi hún önnur skilaboð þar sem hún sagði: „Ég mun ekki leyfa útlendingum að segja þessu landi fyrir verkum. Þess vegna höfum við Trump.“

Eftir atvikið setti Suh tilfinningaþrungið myndband á YouTube. Þar sagði hún að það særði sig eftir að hafa búið í landinu í 23 ár að svona hlutir ættu sér stað. „Það skiptir ekki máli hvernig ég kem fram við aðra. Ef þú ert asískur, þá ertu annars flokks manneskja. Fólk getur komið fram við þig eins og rusl.“

Í frétt Guardian segir lögmaður Barker að hún sjái eftir hegðun sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert