Hljómsveitin Radiohead ætlar að hundsa ákall listamanna um að aflýsa tónleikum sínum í Ísrael. Tónleikarnir, sem eru á morgun, hafa valdið mikilli ádeilu, en margir helstu listamenn heimsins hafa neitað að koma fram í landinu, vegna hernáms þess á svæðum Palestínu.
Thom Yorke, söngvari Radiohead, hefur svarað listamönnunum og sagt að kröfur um aflýsingu séu yfirlætiskenndar. Í síðustu viku sagði Yorke í Twitter-færslu: „Að spila í landi er ekki það sama og að styðja við ríkisstjórn.“
„Við höfum spilað í Ísrael í meira en 20 ár, í gegnum raðir ríkisstjórnar, þar sem sumar voru frjálslyndari en aðrar. Rétt eins og í Bandaríkjunum. Við styðjum ekki Netanyahu (forsætisráðherra Ísraels) frekar en við styðjum Trump, en við spilum samt í Bandaríkjunum,“ sagði Yorke.
Hann bætti við að „tónlist, list og menntun snýst um að fara yfir landamæri og ekki að byggja þau, um opna huga ekki lokaða, um sameiginlega mannúð, samræðu og tjáningarfrelsi“.
Herferð um að sniðganga Ísrael vegna áratuga hernáms þess á palestínskum landsvæðum, hefur gengið á í mörg ár. Tónleikar Radiohead vekja aftur á móti sérstaka athygli þar sem hljómsveitin er þekkt fyrir að taka afstöðu í stjórnmálum og mannréttindum. Hljómsveitin hefur barist fyrir umhverfismálum og gegn því sem henni þykir ósanngjarnt í alheimsviðskiptum.
Nú hefur verið ákall til Ísraela um að kaupa miða til stuðnings tónleikunum. Miðinn er ekki ókeypis, en hann kostar 484 ísraelska sikla, eða tæpar 14.000 krónur. Naranja, skipuleggendur tónleikanna, segja að af 51.000 miðum hafi 50.000 selst nú þegar.
Margir pólitískir tónlistarmenn hafa neitað að koma fram í Ísrael, þar á meðal Lauryn Hill og Elvis Costello. Aftur á móti kom hljómsveitin Guns and Roses fram í Tel Aviv síðasta laugardag og einnig komu söngkonan Britney Spears og söngvarinn Elton John nýlega fram í borginni.
Listamenn sem krefjast aflýsingar eru meðal annars Roger Waters úr Pink Floyd og leikstjórinn Ken Loach.
Loach, sem er afar vinsæll leikstjóri mynda með pólitískum undirtóni, skrifaði nýlega í pistli sínum í breska blaðinu Independent: „Ef þeir fara til Tel Aviv gæti verið að þeir jafni sig aldrei af því.“ Þá skrifaði hann: „Radiohead þarf að ákveða hvort þeir vilji standa með þeim kúguðu eða kúgaranum. Valið er einfalt.“