Ítalskur dómstóll hefur neitað mafíuforingjanum Salvatore „Toto“ Riina um að fá lausn úr fangelsi vegna alvarlegra veikinda. Var það mat dómstólsins í Bologna að hann gæti ekki fengið betri læknismeðferð utan fangelsismúranna. AFP-fréttaveitan greinir frá.
„Toto“ Riina, sem er 86 ára gamall, fékk viðurnefnið „The Beast“ eða Skepnan vegna skelfilegrar grimmdar sinnar, en hann er talinn hafa fyrirskipað yfir 150 morð. Hann hefur afplánað lífstíðardóm síðan árið 1993.
„Toto“ er meðal annars talinn vera á bakvið drápið á dómurunum Giovanni Falcone og Paolo Borsellino árið 1992. En þeir lögðu stein í götu mafíustarfsemi á Ítalíu.
Mafíuforinginn fyrrverandi þjáist af krabbameini í nýra ásamt því að vera orðinn veill fyrir hjarta. Hann óskaði eftir því að fá að afplána dóminn í stofufangelsi eða fá hann einfaldlega felldan niður vegna veikinda.
Á síðasta ári hafnaði dómstóllinn svipaðri beiðni frá lögfræðingi Riina, en talið var að Riina væri ennþá hættulegur.