Predikunarstólnum lokað vegna Mission Impossible 6

Daglega ganga allt að 7.000 manns upp á þennan 600 …
Daglega ganga allt að 7.000 manns upp á þennan 600 fermetra klettaflöt. Mynd/Atli Steinn Guðmundsson

Einni sérstæðustu náttúruperlu Rogaland-fylkis í Noregi, klettahamrinum Preikestolen, eða Predikunarstólnum, við Lyse-fjörðinn, verður lokað fyrir göngufólki í níu daga í september til að Tom Cruise, Alec Baldwin, Angela Bassett, kvikmyndatökufólk og aðrir aðstandendur kvikmyndarinnar Mission Impossible 6 fái þar vinnufrið.

Daglega ganga allt að 7.000 manns upp á þennan 600 fermetra klettaflöt sem gnæfir í 604 metra hæð yfir Lyse-firði og býður upp á stórkostlega útsýn inn og út eftir firðinum en á þeim heimsóknum verður níu daga hlé í haust.

Tom Cruise fer með aðalhlutverk myndarinnar.
Tom Cruise fer með aðalhlutverk myndarinnar. AFP

Það var leikstjóri myndarinnar, Christopher McQuarrie, sem ljóstraði þessu upp í mars þegar hann birti mynd af Predikunarstólnum á Instagram en nú er undirbúningur í algleymingi og hafa loftferðayfirvöld Rogaland-fylkis veitt heimild fyrir 50 þyrlulendingum á dag yfir það tímabil sem tökurnar standa en mannskapur og búnaður munu verða á stöðugu ferðalagi til og frá klettahamrinum.

Góð auglýsing

„Það verður auðvitað mjög jákvætt að fá þessa stóru alþjóðlegu auglýsingu fyrir svæðið og hingað munu líklega streyma ferðamenn í enn meiri mæli en nú þegar,“ segir Audun Rake, formaður stjórnar Preikestolen-svæðisins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en bendir einnig á að auðvitað sé það þyngra en tárum taki að þurfa að loka svæðinu fyrir annarri umferð á meðan, en stöðugur straumur fólks er um þessa gönguleið sem tekur vant göngufólk rúman klukkutíma að ganga.

Mission Impossibe 6 verður frumsýnd 27. júlí 2018 og má teljast líklegt að einhverjir úr hópi persóna og leikenda, eða að minnsta kosti áhættuleikarar, taki dýfuna ofan af Predikunarstólnum en hann er nú þegar einn af vinsælustu BASE-stökkvarastöðum Noregs.

Gömul þjóðsaga, sem Rogalendingar þekkja vel, segir að Predikunarstóllinn muni brotna og hrynja ofan í Lyse-fjörðinn daginn sem sjö bræður gangi að eiga sjö systur við fjörðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert