Atli Steinn Guðmundsson skrifar frá Ósló
Í dag staldra Norðmenn við og líta til baka til sólríks föstudags sumarið 2011 sem á aldrei eftir að líða þeim úr minni, dags sem er jafnvel hörmulegri og óskiljanlegri í þjóðarvitundinni en hin óvænta og lengi vel ófyrirgefanlega innrás Þjóðverja í apríl 1940, dagsins þegar einn af landsins eigin sonum greip til vopna gegn þjóð sinni með rökstuðningi sem skandinavísk lýðræðisþjóð mun aldrei skilja.
„Þetta er dagur fórnarlambanna, dagur þeirra sem misstu ástvini sína og síðast en ekki síst dagur þeirra sem komu til hjálpar á ögurstundu,“ sagði Erna Solberg forsætisráðherra í stuttu og látlausu ávarpi sínu þegar Óslóarbúar komu saman fyrir framan stjórnarráðsbyggingu sína klukkan tíu í morgun og minntust þeirra 77 sem létust 22. júlí 2011, þar af átta manns í miðborg Óslóar.
„Tíminn læknar ekki öll sár,“ sagði Solberg og lagði mikla áherslu á að fórnarlömb Anders Behring Breivik mættu aldrei gleymast, sorg aðstandenda þeirra og ástvina væri svo þung og svo óbærileg að hana ættum við hin, sem vorum óhult þennan dag, sem vorum svo heppin að vera ekki á röngum stað, á röngum tíma, seint eftir að skilja. Líklega aldrei.
Mani Husseini, formaður ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins, flutti einnig ávarp og sagði meðal annars að daginn í dag skyldu Norðmenn nýta til þess að líta eftir hver öðrum, faðmast örlítið fastar en venjulega, bjóða öxl til að gráta við eða hönd til að halda í.
Í Útey í Tyri-firði í fylkinu Buskerud, suðvestur af Ósló, verður einnig vegleg minningarathöfn síðdegis í dag en þar féllu flest fórnarlömb Breivik, 69 félagar ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins sem sóttu þar árlega sumarsamkomu sína.
Þar mun Jonas Gahr Støre, formaður flokksins, ávarpa viðstadda og lesa upp nöfn þeirra sem létust í atlögu Breivik auk þess sem haldin verður einnar mínútu þögn í minningu þeirra en svo var einnig gert í Ósló í morgun en þar var enn fremur boðið til lokaðs samsætis aðstandenda þeirra sem létust með forsætisráðherra og öðrum ráðherrum landsins.
Að lokum munu Erna Solberg, Jonas Gahr Støre og Mani Husseini leggja krans á bryggjuna í Útey klukkan 16:45 í dag og kóróna þar með minningarstundina.