Öldurnar allt að 90 metra háar

Þorpið Nu­uga­atsiaq varð illa úti. Gert er ráð fyrir að …
Þorpið Nu­uga­atsiaq varð illa úti. Gert er ráð fyrir að fjórir hafi látið lífið og margir íbúar byggðarinnar eru í dag án heimilis. Ljós­mynd/​Palle Laurit­sen

Öldurnar urðu allt að 90 metra háar í kjölfar skriðu sem féll í sjó í Karratfirði á vesturströnd Grænlands í síðasta mánuði. Þær eru með þeim hæstu sem vitað er um. Á innan við fimm mínútum skullu þær á byggðinni sem var í 30 kílómetra fjarlægð. Fjórir eru taldir hafa látið lífið og margir íbúar byggðarinnar eru enn í dag húsnæðislausir.  

Þetta sýna rannsóknir jarðvísindamanna sem kannað hafa svæðið þar sem skriðan féll. Hermann Fritz, einn vísindamannanna, sagði í samtali við danska útvarpið DR, að þrátt fyrir að ölduhæðin hafi verið afar há, þá hafi hún fljótlega minnkað áður en bylgjurnar breiddust út um Uummannaq-fjörð.

30 kílómetra fjarlægð á fimm mínútum

Að sögn Fritz var ölduhreyfingin á hverri sekúndu á við lengd fótboltavallar. Öldurnar fóru því afar hratt yfir og skall flóðbylgjan á byggðinni, sem er í um 30 kílómetra fjarlægð, á innan við fimm mínútum. „Það var því ekki mikill tími til að bregðast við,“ segir hann.

Hann bætir við að það sé því skiljanlegt að ekki hafi náðst að fyllilega rýma þorpin Nuugatsiaq og Illorsuit í tæka tíð. Flóðbylgjan gekk á land og olli mikilli eyðileggingu og talið er að hún hafi kostað fjóra lífið.

Með þeim hæstu sem vitað er um

Þegar flóðið skall á byggðinni þann 17. júní, þurftu hundruð íbúa að yfirgefa heimili sín í snatri og eru margir þeirra enn í dag heimilis- og eignalausir. Öldurnar eru með þeim hæstu sem vitað er um. Urðu þær m.a. stærri en öldurnar sem risu eftir jarðskjálftann í Japan árið 2011, þar sem ölduhæðin náði 40 metrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert