Saffie Rose Roussos, yngsta fórnarlamb hryðjuverkaárásarinnar í Manchester, var lögð til hinstu hvílu í dag. Saffie Rose var 8 ára þegar hún lést. Móðir hennar, sem slasaðist alvarlega í árásinni, var viðstödd útförina en hún er enn í gifsi.
Kista stúlkunnar var skreytt rósum en faðir hennar var meðal kistubera. Þeir sem sóttu athöfnina voru beðnir um að koma með rós með sér.
Meðal viðstaddra voru borgarstjórinn Andy Burnham og lögreglustjórinn Ian Hopkins.
Útförin var sú síðasta eftir árásina en 22 létust, þar af sjö yngri en 18 ára.
Í þorpinu Tarleton, þar sem Saffie Rose og bróðir hennar sóttu skóla, voru göturnar skreyttar bleikum borðum, sem voru bundnir á ljósa- og hliðarstaura.
Chris Upton, yfirkennarinn við skóla Saffie Rose, minntist hennar við athöfnina og sagði það kaldhæðni örlaganna að tónleikar Ariönu Grande, þar sem árásarmaðurinn lét til skarar skríða, hefðu verið dásamleg upplifun fyrir stúlkuna.
„Er þið yfirgefið dómkirkjuna í dag, reynið að vera aðeins meira eins og Saffie; metnaðarfull, glaðlynd, ástúðleg og ástríðufull,“ sagði hann.