Dúkur mun hylja Grenfell-turninn í London, þar sem að minnsta kosti 80 manns létu lífið í júní, á meðan rannsókn stendur yfir. Gert er ráð fyrir að hann verði settur utan um vinnupalla á húsnæðinu í ágúst. Frá þessu greindi Michael Lockwood byggingastjóri á fundi með almenningi í kirkju meþódista í Notting Hill í gær. BBC greinir frá.
Búist er við að rannsókn á húsnæðinu sjálfu muni standa fram í nóvember þar sem fjölmargir leitarsérfræðingar vinna meðal annars að því að finna fórnarlömb eldsvoðans. Á meðal sérfræðinga sem sinna þessi starfi eru nokkrir þeirra sem störfuðu á sínum tíma við leit í rústum Tvíburaturnanna 11. september árið 2001.
Gert er ráð fyrir að lögreglurannsókn muni standa að minnsta kosti fram til janúar á næsta ári.
Þeir íbúar sem bjuggu í 33 íbúðum byggingarinnar geta átt von á að fá einhverjar eigur sínar aftur. Það verður þó ekki fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku. Sumar íbúðirnar eru stráheilar en aðrar eru gjörónýtar.
„Á næsta ári getum við farið að huga að því að rífa bygginguna niður, það er að segja ef það er krafa samfélagsins. Vinnupallarnir munu nýtast í það starf,“ sagði Lockwood og bætti við að allar ákvarðanir sem snerta bygginguna velta á vilja íbúanna og samfélagsins.
Minningarathöfn um fimm þeirra sem létust í eldsvoðanum verður haldin á næstunni í kirkju heilagrar Helen í Norður-Kensington.