Obamacare lifir - þungt högg fyrir Trump

John McCain var með þeirra repúblikana sem greiddu atkvæði gegn …
John McCain var með þeirra repúblikana sem greiddu atkvæði gegn tillögu flokksins um afnám ákveðinna ákvæða Obamacare. AFP

Öld­unga­deild Banda­ríkj­anna hafnaði í nótt af­námi Obamacare, heil­brigðis­lög­gjöf for­set­ans fyrr­ver­andi, en um er að ræða veru­legt bak­slag fyr­ir rík­is­stjórn Don­alds Trumps og Re­públi­kana­flokk­inn. Þrír flokks­menn greiddu at­kvæði á móti frum­varp­inu, sem var fellt með 51 at­kvæði á móti 49.

John McCain, sem snéri aft­ur til Washingt­on í vik­unni eft­ir að hafa verið greind­ur með heilakrabba­mein, var einn þeirra sem greiddi at­kvæði á móti frum­varp­inu.

Til­lag­an sem lá fyr­ir þing­inu hef­ur verið kölluð „skinny repeal“ vest­an­hafs en hún gekk út á að af­nema þau ákvæði Obamacare sem kveða á um að all­ir Banda­ríkja­menn verði að vera sjúkra­tryggðir, ella sæta sekt­um.

Sam­kvæmt hinni ópóli­tísku fjár­lag­nefnd þings­ins hefðu 15 millj­ón­ir manna orðið af sjúkra­trygg­ing­um ef frum­varpið hefði farið í gegn og iðgjöld hækkað um 20%.

Trump gaf út yf­ir­lýs­ingu á Twitter snemma í morg­un þar sem hann sagðist nú vilja láta Obamacare „springa“. Re­públi­kan­arn­ir þrír og demó­krat­arn­ir 48 hefðu brugðist banda­rísku þjóðinni.

Áður en at­kvæðagreiðslan fór fram hvatti McCain blaðamenn til að fylgj­ast með en hann og vara­for­set­inn Mike Pence áttu síðan 20 mín­útna sam­ræður og leiða má lík­ur að því að til­gang­ur þeirra hafi verið að fá McCain til að hverfa frá af­stöðu sinni.

En svo fór sem fór.

Trump hefur hótað því að snúa sér að öðru og …
Trump hef­ur hótað því að snúa sér að öðru og leyfa Obamacare að „springa“. Það yrði hins veg­ar gríðarlegt högg fyr­ir re­públi­kana ef þær neydd­ust til að játa sig sigraða. AFP

Eft­ir at­kvæðagreiðsluna sagði Chuck Schumer, leiðtogi demó­krata í öld­unga­deild­inni, að hann og McCain hefðu tal­ast við þris­var til fjór­um sinn­um á dag síðan síðar­nefndi snéri aft­ur til starfa.

„Hann er hetja,“ sagði Schumer um McCain. „Hann er hetj­an mín.“

Þingmaður­inn sagðist ekki muna eft­ir drama­tísk­ara kvöldi, nema ef til vill þegar dótt­ir hans kom í heim­inn.

Re­públi­kan­ar eru klofn­ir í af­stöðu sinni til þess hvernig á að af­nema Obamacare; hörðustu íhalds­menn vilja lög­in burt í heild sinni en hóf­sam­ari arm­ur flokks­ins vill halda í ýmis ákvæði sem hafa reynst vel.

Demó­krat­ar hafa viður­kennt að heil­brigðis­lög­gjöf­in sé ófull­kom­in og hvatt re­públi­kana til þess að vinna að því með sér að betr­um­bæta hana.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka