Keníska lögreglan segist nú hafa drepið árásarmanninn sem braust inn á heimili Williams Rutos, varaforseta Kenía, í gær. Með því lauk umsátri sem stóð í nokkra klukkutíma. Ruto og fjölskylda hans voru ekki heima þegar árásin átti sér stað.
Samkvæmt upplýsingum frá kenísku lögreglunni braust árásamaðurinn inn á heimilið eftir að hafa sært lögregluþjón með sveðju og tekið af honum byssu sem hann bar á sér.
Atvikið gerist aðeins tveimur vikur fyrir forsetakosningar í landinu, þar sem mjótt er á munum milli núverandi forsetans Uhurus Kenyatta og stjórnarandstöðuleiðtogans Raila Odinga.
Þessu greinir breska ríkisútvarpið BBC frá.
Lögreglustjórinn Joseph Boinnet sagði kenískum fjölmiðlum að lögreglan hefði nú stjórn á ástandinu. „Það er engin ógn lengur af því hann var sá eini sem um var að ræða,“ sagði Boinnet.
Fyrri umfjallanir gáfu til kynna að fleiri byssumenn hefðu brotist inn á heimili Rutos.
Hús varaforsetans stendur nærri bænum Eldoret sem liggur 312 km norðvestur af höfuðborginni Nairobi.