Lögreglan í Afganistan segir að sjálfsvígsárás hafi verið gerð fyrir utan sendiráð Íraks í Kabúl, höfuðborg Afganistans. Nokkrar sprengingar heyrðust í Shar-e-Naw hverfi borgarinnar og í kjölfarið heyrðust skothvellir.
Skotbardagi er í gangi, að því er segir á vef BBC, og er unnið að því að flytja óbreytta borgara á brott.
Margar mannskæðar árásir hafa verið gerðar í Kabúl á þessu ári. Talibanar eða liðsmenn hins svokallaða Ríkis íslams eru sagðir bera ábyrgð á árásunum. Nákvæmar lýsingar á árásinni í dag liggja ekki fyrir að svo stöddu.
Haft er eftir einum embættismanni að maður hafi sprengt sjálfan sig í loft upp á svæði þar sem lögregluhöfuðstöðvar eru og sendiráðsbygging Íraks.
Ekki liggur fyrir hvort einhver hafi særst í árásinni.