Mjallahvítur snákur sem er af „ótrúlega sjaldgæfu“ stökkbreyttu afbrigði fannst nýverið í Ástralíu. Maðurinn sem fann snákinn afhenti hann dýraverndunarstofnun á svæðinu þar sem hann er enn í góðu yfirlæti.
Snákurinn fer í einangrun til að ganga úr skugga um að hann sé ekki sýktur og hættulegur öðrum dýrum. Síðan stendur til að hafa hann til sýnis, segir á Facebook-síðu stofnunarinnar. Snákurinn er með svört augu og því ekki albínói, að sögn starfsmanna stofnunarinnar. Ekki stendur til að sleppa honum aftur út í hina villtu náttúru því ólíklegt er talið að hann lifi dvöl þar af þar sem hann er mjallahvítur og sker sig úr.
Starfsfólkið ætlar að sjá til þess að hann lifi góðu og innihaldsríku lífi.