Mikil skálmöld hefur ríkt á norskum samfélagsmiðlum síðan á mánudag þegar dagblaðið VG birti mynd af Ernu Solberg forsætisráðherra í vinnusamfestingi með frétt sem fjallaði um að Solberg gæti vel hugsað sér að sitja áfram sem leiðtogi Hægriflokksins hvernig sem þingkosningarnar 11. september fari.
Það hefur svo sem ekki farið lágt í umræðu síðustu missera að Björgvinjarbúanum brosmilda þykir býsna vel í skinn komið. Margir telja Ernu Solberg of feita. Bloggarinn Carina Elisabeth Carlsen ritar grein um stjórnmál og útlitsdýrkun á síðuna kroppspositivisme.no sem norska ríkisútvarpið NRK birtir í dag á sinni síðu.
Carlsen er sjálf ekki ókunnug málaflokknum en hún hefur mátt sitja undir hvort tveggja morð- og ofbeldishótunum fyrir að vera yfir kjörþyngd. Hún skrifar að Erna Solberg hafi sætt mikilli gagnrýni þar sem því hefur meðal annars verið slegið fram að hún geti ekki verið hæf sem leiðtogi Noregs, vaxtarlag hennar beri vott um skort á sjálfsstjórn sem ekki geti samræmst hlutverki þjóðarleiðtoga.
Hans Rustad, stofnandi og ritstjóri fréttaskýringasíðunnar document.no, telur myndbirtingu VG einungis til þess fallna að hæðast að forsætisráðherranum og kallar myndbirtinguna fáránlega, fyrirsögnin gæti allt eins verið „Ha ha, sjáið hvernig hún lítur út!“
Þetta viðhorf Rustad gagnrýnir Carlsen harðlega og segir það sorglegt hve álitsgjafar, skrifarar og fjölmiðlafólk festist í hugmyndum um Photoshop-útlit, kroppsdýrkun og glæsileika þegar fréttaefnið sé allt annað, í þessu tilfelli þingkosningar haustsins í Noregi sem ættu að hafa minnst með útlit einstakra frambjóðenda að gera.
„Rustad lítur fram hjá þeirri staðreynd að Solberg sjálf valdi að stíga fram fyrir myndavélar blaðamanna í samfestingi,“ skrifar Carlsen, „ég hef til allrar hamingju um annað að hugsa en hvort ég uppfylli kröfur fólks á borð við Rustad um það hvernig kona eigi að líta út,“ skrifar hún enn fremur og klykkir út með því að Solberg sjálfri, sem gegni mun stærra og veigameira hlutverki en Carlsen gerir, gæti líklega ekki staðið meira á sama.
NRK heldur nú úti rökræðum um málið á Facebook og Twitter undir sömu fyrirsögn og Carlsen notar á blogggrein sína, Kyn og stjórnmál (n. Sex og politikk), en það er Facebook-síðan NRK Debatt sem er vettvangurinn og hafa ýmsir tekið þar til máls:
Sylvi Greibesland skrifar: „Erna er flott! Þar fyrir utan er hún stjórnmálamaður, ekki herðatré!
Mette Årvold skrifar: „Töff mynd af töff konu.“
Tone Wachelin skrifar: „Erna er góð fyrirmynd, sama hvaða stjórnmálaskoðanir maður hefur.“
Steinar Johansen skrifar: „VG rekur hatursherferð á móti Ernu, okkur er öllum kunnugt um að blaðamenn þar eru eldrauðir og munu aldrei bjóða upp á neitt jafnvægi í umfjöllun.“