Rúmlega aldargömul ávaxtakaka hefur nú fundist í góðu ásigkomulagi í kofa á Suðurskautslandinu þar sem breski landkönnuðurinn Robert Falcon Scott dvaldi í örlagaríkum leiðangri sínum á Suðurpólinn árin 1910-1912.
Þrátt fyrir að boxið sem kakan var í hafi verið ryðgað og við það að detta í sundur, þá var kakan nánast eins og ný. „Hún leit út og lyktaði nánast eins og hún væri æt,“ sagði Lizzie Meek, talsmaður nýsjálensku stofnunarinnar Antartic Heritage Trust. Stofnunin hefur staðið fyrir verndarverkefni yfir húsnæðinu síðustu ár.
Meek segir fundinn hafa komið töluvert á óvart, en ávaxtakökur séu hins vegar góð orka í ferðalagi eins og Scotts og félaga. „Þetta er tilvalin orkumikil fæða fyrir skilyrðin á Suðurskautslandinu, og er enn vinsæl á meðal þeirra sem ferðast út á ísinn,“ sagði hún.
Landkönnuðurinn Scott notaði kofann á Evanshöfða sem grunnbúðir í leiðöngrum sínum um Suðurpólinn og reisti hann ásamt fjórum félögum sínum þann 17. janúar 1912. Þeir komust hins vegar að því að hinn norski Roald Amundsen hafði sigrað þá í kapphlaupinu og var sá fyrsti til að ná Suðurpólnum, 5 vikum á undan þeim. Scott og ferðafélagar hans fjórir létust allir á ferðinni til baka á Evanshöfða.