Aldargömul kaka fannst á Suðurpólnum

Kakan er í góðu ásigkomulagi.
Kakan er í góðu ásigkomulagi. ljósmynd/Ant­artic Her­ita­ge Trust

Rúmlega aldargömul ávaxtakaka hefur nú fundist í góðu ásigkomulagi í kofa á Suðurskautslandinu þar sem breski landkönnuðurinn Robert Falcon Scott dvaldi í örlagaríkum leiðangri sínum á Suðurpólinn árin 1910-1912.

Þrátt fyrir að boxið sem kakan var í hafi verið ryðgað og við það að detta í sundur, þá var kakan nánast eins og ný. „Hún leit út og lyktaði nánast eins og hún væri æt,“ sagði Lizzie Meek, talsmaður nýsjálensku stofnunarinnar Ant­artic Her­ita­ge Trust. Stofnunin hefur staðið fyrir verndarverkefni yfir húsnæðinu síðustu ár.

Meek segir fundinn hafa komið töluvert á óvart, en ávaxtakökur séu hins vegar góð orka í ferðalagi eins og Scotts og félaga. „Þetta er tilvalin orkumikil fæða fyrir skilyrðin á Suðurskautslandinu, og er enn vinsæl á meðal þeirra sem ferðast út á ísinn,“ sagði hún. 

Land­könnuður­inn Scott notaði kof­ann á Evans­höfða sem grunn­búðir í leiðöngr­um sín­um um Suður­pól­inn og reisti hann ásamt fjór­um fé­lög­um sín­um þann 17. janú­ar 1912. Þeir komust hins ­veg­ar að því að hinn norski Roald Amundsen hafði sigrað þá í kapp­hlaup­inu og var sá fyrsti til að ná Suður­póln­um, 5 vik­um á und­an þeim. Scott og ferðafé­lag­ar hans fjór­ir lét­ust all­ir á ferðinni til baka á Evans­höfða.

Frétt Sky fréttastofunnar.

Boxið utan af kökunni er ryðgað og við það að …
Boxið utan af kökunni er ryðgað og við það að detta í sundur. ljósmynd/Ant­artic Her­ita­ge Trust
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka