FBI hefur rannsókn í Charlottesville

Frá aðgerðum í Charlottesville í gær.
Frá aðgerðum í Charlottesville í gær. AFP

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur hafið rannsókn á því hvað leiddi ökumann til að keyra bifreið sína inn í hóp þeirra sem komnir voru saman til að mótmæla samkomu þjóðernissinna í Charlottesville í Virginíu í gær.

Athæfið varð 32 ára konu að bana og særði 19 manns til viðbótar, suma lífshættulega.

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir „ofbeldið og dauðsföllin í Charlottesville ljósta niður í hjarta bandarískra laga og réttlætis.“

Sessions segist hafa rætt við nýskipaðan forstjóra FBI, Chris Wray, ásamt fulltrúum FBI á vettvangi og lögreglufulltrúum frá Virginíu.

James Alex Fields Jr. er grunaður um athæfið.
James Alex Fields Jr. er grunaður um athæfið. AFP

Eitt af því sem lætur málið falla undir lögsögu alríkislögreglunnar er sú staðreynd að sá grunaði í málinu, hinn 20 ára James Alex Fields Jr., fór yfir ríkjamæri þegar hann ferðaðist frá Ohio til Virginíu. Fields er nú í haldi lögreglu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur mátt þola gagnrýni, meðal annars frá flokksmönnum sínum, fyrir að hafa að því er virðist neitað að gagnrýna hægrisinnaða haturshópa.

Alls eru þrír látnir eftir mótmælin í gærdag, en auk konunnar voru það tveir lögreglumenn sem hröpuðu til jarðar í þyrlu sem var á flugi vegna mótmælanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert