Borgaryfirvöld víða í Bandaríkjunum hafa tilkynnt að þau muni ekki láta mótmælin í Charlottesville um helgina, þar sem þrír létu lífið hið minnsta, hafa áhrif áætlanir um að fjarlægja minnismerki um málstað Suðurríkjahers í þrælastríðinu. Þess í stað verði aukin kraftur lagður í slíkar aðgerðir.
Neyðarástandi var lýst yfir í Charlottesville í Virginíuríki í Bandaríkjunum á laugardag vegna átaka á milli hægri þjóðernissinna og andstæðinga þeirra. Hvítir þjóðernissinnar, m.a. Ku Klux Klan-liðar og nýnasistar höfðu komið saman í borginni til að mótmæla þeirri fyrirætlan borgaryfirvalda að fjarlæga styttu af Robert E. Lee, hershöfðingja Suðurríkjanna í bandaríska borgarastríðinu.
Reuters-fréttastofan segir borgarstjóra Baltimore og Lexington hafa greint frá því í dag að aukin kraftur verði settur í að fjarlægja minnismerki um málstað Suðurríkjanna í þrælastríðinu úr borgunum.
Þá greindu yfirvöld í Memphis í Tennessee og Jacksonville í Flórída í gær frá áætlun um að minnismerki um Suðurríkin verði fjarlægð. Repúblikaninn og ríkisstjóri Tennesseee, Bill Haslam, hvatti löggjafann í höfuðborg ríkisins til að fjarlægja brjóstmynd af Nathan Bedford Forrest, herforingja í Suðurríkjahernum og einum af fyrstu liðsmönnum Ku Klux Klan.
„Það er tímabært að við stöndum upp,“ sagði Jim Gray borgarstjóri Lexington í gær, þegar hann tilkynnti hertar aðgerðir.
Reuters segir mótmælin í Charlottesville og óeirðirnar sem fylgdu í kjölfarið hafa flýtt því að önnur minnismerki um Suðurríkjaher verði fjarægð.
Í Duram í Norður-Karólínuríki, tóku mótmælendur málin í sínar eigin hendur og feldu niður minnismerki um Suðurríkin af stalli sínum fyrir utan dómshúsið.