A&M-háskólinn í Texas hefur aflýst fyrirhuguðum mótmælum sem öfgasinnaðir þjóðernissinnar hugðust halda 11. september undir yfirskriftinni White Lives Matter. Er það gert af ótta við að átök geti brotist út en þrír létu lífið og hátt í 40 særðust í Charlottesville í Virginíu um helgina er hvítir þjóðernissinnar mótmæltu við Háskólann í Virginíu. Þetta kemur fram á vef Houston Chronicle.
Þjóðernissinnar héldu samskonar viðburð á lóð A&M-skólans í desember. Voru skólayfirvöld þá gagnrýnd fyrir koma ekki í veg fyrir hann en báru fyrir sig fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Nú horfir málið öðruvísi við. „Það að tengja harmleikinn í Carlottesville við viðburðinn í A&M-skólanum skapar meiriháttar hættu á skólalóðinni,“ segir í yfirlýsingu frá háskólanum frá í gær. Höfðu talsmenn mótmælanna einmitt sagt þau framhald þeirra.
Til stóð að Richard Spencer héldi ræðu á fundinum en hann er áhrifamaður innan hreyfingar þjóðernissinna í Bandaríkjunum og dyggur stuðningsmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Spencer, sem er upphafsmaður hugtaksins alt-right (hitt hægrið), sem margir þjóðernisöfgamenn kalla sjálfa sig. Spencer hefur kallað eftir „friðsömum þjóðernishreinsunum“ og ítrekað notast við tilvitnanir og stef úr ræðum nasista.