Heimilislaus maður, sem var kallaður hetja fyrir að aðstoða fólk eftir hryðjuverkaárásina í Manchester Arena tónleikahöllinni í maí, hefur nú verið ákærður fyrir að hafa rænt greiðslukorti á vettvanginum. Sky fréttastofan greinir frá.
Hinn 33 ára gamli Chris Parker var í anddyri tónleikahallarinnar eftir tónleika Ariana Grande þann 22. maí sl. þegar Salman Abedi sprengdi sig í loft upp. 22 létu lífið og 59 særðust í árásinni.
Parker sagði í samtali við fjölmiðla eftir árásina að í stað þess að flýja hafi hann ákveðið að hjálpa fólki. Aðstoðaði hann meðal annars unga stúlku og hlúði að konu sem lést í örmum hans.
Í kjölfarið var sett af stað söfnun fyrir Parker á hópfjármögnunarsíðunni GoFundMe, þar sem yfir 50 þúsund pund söfnuðust, eða yfir sjö milljónir króna. Talsmaður síðunnar hefur nú sagt að fylgst sé náið með málinu á hendur Parker, og öll fjárframlög séu örugg á síðunni. Hefur hann hvatt alla sem hafa áhyggjur af framlagi sínu til að hafa samband við síðuna.
Lögreglan í Manchester hefur sagt að Parker hafi verið ákærður fyrir tvö þjófnaðarbrot í tengslum við greiðslukort sem rænt var í tónleikahöllinni þann 22. maí.
Parker hafði oft áður komið í anddyri hallarinnar til að betla pening eftir tónleika. „Ég sá litla stelpu [...] hún var ekki með fætur. Ég vafði hana inn í stuttermabol og spurði hvar foreldrar hennar væru. Hún sagði að pabbi hennar væri í vinnunni en mamma hennar væri uppi,“ sagði hann í maí.
Þá lýsti hann því einnig að hafa hlúð að konu sem lést í örmum hans. „Hún var á sjötugsaldri og sagðist hafa komið á tónleikana með fjölskyldunni. Ég hef ekki hætt að gráta, þetta voru tónleikar ætlaðir börnum. Ég get ekki hætt að hugsa um öskrin og lyktina.