Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fordæmdi kynþáttahatur í twitterskilaboðum sem hann sendi frá sér eftir mótmælin í Charlottesville um helgina. Rúmlega 2,9 milljónir twitternotenda hafa lækað orð forsetans fyrrverandi sem vitnaði þar í Nelson Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku.
Tíst Obama er nú orðið þau twitterskilaboð sem hvað flestir hafa lækað. Áður átti bandaríska söngkonan Ariana Grande metið en 2,7 milljónir manna lækuðu tíst Grande eftir hryðjuverkaárásina í Manchester Arena-tónleikahöllinni að því er Guardian greinir frá.
Obama endurbirti þau orð Mandela að enginn hataði annan einstakling vegna húðlitar eða bakgrunns strax frá fæðingu, en Mandela lét þau orð falla þegar kona lést í mótmælum hægriöfgamanna í Suður-Afríku.
Í næstu skilaboðum sínum hélt Obama áfram að vitna í Mandela og sagði hatur vera nokkuð sem lærðist. Ef fólk geti lært að hata geti það líka lært að elska.
„Af því að ást er manninum eðlilegri en andstaðan,“ sagði Obama í þriðju skilaboðunum sem hann sendi. Hver þessara skilaboða forsetans hafa fengið rúmlega milljón læk og hundruð þúsunda hafa endurbirt þau á sínum síðum.