Hafa staðsett flak malasísku þotunnar

Vísindamenn telja sig hafa reiknað út staðsetningu malasísku þotunnar sem …
Vísindamenn telja sig hafa reiknað út staðsetningu malasísku þotunnar sem hvarf sporlaust árið 2014. ROB GRIFFITH

Ástralskir vísindamenn telja sig hafa fundið staðsetningu flaks malasísku farþegaþotunnar sem hvarf af ratsjám á leið sinni frá Peking til Kuala Lumpur í mars árið 2014.

Nákvæmlega sjö mánuðum eftir að leit vélarinnar var blásin af hafa ástralskir vísindamenn reiknað út að flugvélin hafi brotlent 35,6 gráður suður af miðbaugi og 92,8 gráður austur af Greenwichbaugi.

239 manns voru um borð í vélinni þegar hún hvarf sporlaust þann 8. mars 2014. Leit að braki hennar hefur staðið yfir í yfir þrjú ár en í janúar á þessu ári gáfu ráðherrar Malasíu, Ástralíu og Kína hana upp á bátinn.

Vísindamenn Geoscience Australia endurskoðuðu fjórar myndir sem gervihnöttur tók stuttu eftir upphaf leitarinnar og báru kennsl á 12 brot sem þeir telja vera af týndu þotunni.  

Nýjar ítarlegar niðurstöður sýna leiðina sem þotan fór og má álykta af þeim að flakið sé 1250 mílur vestur af sunnanverðri vesturströnd Ástralíu og 2000 mílur suð-vestur af Kuala Lumpur. Hefur því leitin hingað til farið fram á röngum stað.

„Ef við finnum MH370, sem við vonumst til að gera, mun það vera að þakka öllum þessum gervihnattamyndum,“ segir forsvarsmaður rannsóknarinnar, Dr. David Griffin.

Frétt Independent um málið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert