Meirihluti Bandaríkjamanna vill að styttur og önnur minnismerki um Suðurríkin verði látin standa áfram ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar. Mikil umræða hefur verið um málið í Bandaríkjunum að undanförnu og hafa nokkur minnismerki um Suðurríkin verið teknin niður í bandarískum borgum og eða þau skemmd.
Fram kemur í frétt AFP að 62% Bandaríkjamanna vildu að minnismerkin yrði látin standa áfram af sögulegum ástæðum samanborið við 27% sem vildu að þau væru fjarlægð. þar af vildu 44% svartra Bandaríkjamanna halda í minnismerkin en 40% að þau yrðu tekin niður.
Stuðningur á meðal Repúblikana við að halda í minnismerkin er afgerandi en einungis 6% þeirra vilja fjarlægja þau. Hins vegar vilja 44% Demókrata halda í minnismerkin vegna sögunnar en 47% að þau verði fjarlægð.
Samtals eru um 1500 minnismerki um Suðurríkin í Bandaríkjunum. Þá aðallega í suðausturhluta landsins. Suðurríkin slitu sig frá Bandaríkjunum árið 1861 sem leiddi til borgarstyrjaldar landsins sem lauk með ósigri þeirra. Fjöldi gatna, skóla og opinberra bygginga er einnig kenndur við forystumenn Suðurríkjanna.