Fjöldi varð fyrir stunguárás

Á þessari mynd, sem tekin er af Twitter-síðu sjónarvotts, má …
Á þessari mynd, sem tekin er af Twitter-síðu sjónarvotts, má sjá breitt yfir það sem virðist lík á götu við torgið í miðbæ Turku. AFP

Finnska lögreglan hefur skotið mann sem stakk vegfarendur með eggvopni í borginni Turku í suðvesturhluta landsins í dag. Árásarmaðurinn var handtekinn en skot lögreglu hæfðu hann í fótlegginn. Talið er  að fleiri árásarmenn hafi verið að verki og er þeirra nú leitað. Sjónarvottur segist hafa séð mann með „risastóran hníf“ stinga fólk ítrekað. „Það var blóð út um allt.“

Turku er einnig kölluð Åbo.

Lögreglan hefur varað fólk við því að vera á ferli í miðbæ Turku og hefur rýmt nokkrar byggingar þar, m.a. bókasafnið og verslunarmiðstöð. Í fréttum Aftonbladet og fleiri segir að árásir hafi verið gerðar á tveimur stöðum, Trät-torgi og Salu-torgi. 

Í frétt blaðsins Yle segjast tveir sjónarvottar hafa séð til þriggja manna hlaupa af vettvangi og þá segjast einhverjir hafa heyrt skothvelli. Þetta hefur ekki verið staðfest af lögreglu en hún segir þó í færslu á Twitter að fleiri árásarmanna sé leitað.

Í frétt danska ríkissjónvarpsins segir að minnst tveir séu slasaðir. Á myndum á vettvangi megi sjá mann liggja á götunni og að breitt sé yfir hann. Í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að fimmtán manns hafi verið stungnir og að vitni segir árásarmennina hafa verið þrjá.

Viðbúnaðarstig hefur verið hækkað á flugvellinum í Helsinki og á lestarstöðvum vegna árásarinnar.

„Við heyrðum unga konu öskra hátt í einu horni torgsins,“ segir Laura Laine í samtali við blaðið Yle. „Við sáum mann á torginu og það glampaði á hnífinn í loftinu. Ég held að hann hafi stungið einhvern.“

Á samfélagsmiðlum er nú dreift myndskeiði af fólki að hlaupa eftir götu í nágrenni torgsins. Hafa margir skrifað að þarna megi heyra árásarmenn hrópa „Allahu Akbar“ en finnskumælandi fólk hefur ítrekað í dag leiðrétt þetta og segir mennina sem þar má sjá hlaupa hrópa: „Varið ykkur“ eða „varo varokaa“ á finnsku.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert