Tveir eru látnir eftir stunguárás á vegfarendur á torgi í borginni Turku í Finnlandi síðdegis í dag. Þeir höfðu verið fluttir með stungusár á háskólasjúkrahúsið í borginni. Að minnsta kosti átta fórnarlömb voru flutt á sjúkrahús.
Fréttir af atburðarásinni eru enn nokkuð óljósar en lögreglan skaut einn árásarmann í fótinn og handtók. Talið er að fleiri hafi verið að verki og er þeirra nú leitað. Lögreglustjórinn Seppo Kolehmainer segir ómögulegt á þessari stundu að segja til hver beri ábyrgð á árásinni. „Við getum ekki útilokað að atburðurinn sé tengdur alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum en við getum heldur ekki staðfest það.“
Í sænskum fjölmiðlum hefur komið fram að um fimmtán hafi verið stungnir.
Haft er eftir sjónarvottum að árásarmennirnir hafi verið þrír. Vitni segjast m.a. hafa séð einn þeirra stinga fólk ítrekað með risastórum hnífi. „Við heyrðum unga konu öskra hátt í einu horni torgsins,“ segir Laura Laine í samtali við vefsíðu fjölmiðilsins Yle. „Við sáum mann á torginu og það glampaði á hnífinn í loftinu. Ég held að hann hafi stungið einhvern.“
Kent Svensson segir í samtali við CNN að hann hafi séð mann með risastóran hvítan hníf hlaupa um og stinga alla sem á vegi hans urðu. „Þetta var alveg hræðilegt. Við sátum úti rétt hjá torginu og kona öskraði og þessi maður stóð fyrir framan hana með risastóran hníf og stakk fólk. Það var blóð út um allt.“
Mikill viðbúnaður er í Turku sem og víðar í Finnlandi vegna árásarinnar og hefur viðbúnaðarstig verið hækkað alls staðar. Lestarferðum hefur verið aflýst og eftirlit á flugvöllum aukið.
Árásirnar voru gerðar um klukkan 17 að staðartíma á tveimur torgum í miðbænum, Trä-torgi og Salutorgi, að því er fram kemur í frétt sænska ríkissjónvarpsins. Torgin eru nálægt hvort öðru.
Lögreglan mun halda blaðamannafund klukkan 16 að íslenskum tíma, 19 að staðartíma.