Finnska lögreglan handtók fimm menn í Turku í nótt í tengslum við rannsókn sína á stunguárás sem gerð var á torgi í borginni síðdegis í gær. Tveir létust í árásinni og átta liggja sárir á sjúkrahúsi. Lögreglan sagði í morgun að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.
Lögreglan skaut árásarmann í fótinn á vettvangi í gær og handtók hann aðeins nokkrum mínútum eftir að hann stakk fólk á markaðstorginu.
Lögreglan hefur ekki gefið upp nafn mannsins en segir hann vera átján ára gamlan marokkóskan ríkisborgara. Segist hún vinna með útlendingastofnun Finnlands að rannsókn málsins.
„Við gerðum áhlaup og höfum nú sex grunaða í haldi,“ segir lögreglustjórinn Markus Laine í samtali við AFP-fréttastofuna.
Hann segir að nú sé verið að rannsaka hlutverk fimmmenninganna í árásinni en ekki er enn staðfest að þeir hafi komið að henni. „Við munum yfirheyra þá og eftir það höfum við frekari upplýsingar.“
Fimmmenningarnir höfðu allir átt í samskiptum við árásarmanninn sem handtekinn var á vettvangi í gær. Þeir voru handteknir í sömu íbúðinni í Turku í nótt.
Árásarmaðurinn var skotinn í lærið og er enn á gjörgæslu.
„Árásin hefur verið rannsökuð sem morð en í nótt fengum við upplýsingar sem benda til að um hryðjuverk hafi verið að ræða,“ segir í yfirlýsingu frá lögreglunni.
Finnskir fjölmiðlar segja að árásarmaðurinn hafi valið fórnarlömb sín af handahófi.