Lögreglan í Katalóníu hefur ráðist inn á heimili imams í bænum Ripoll, en talið er að hann hafi verið leiðtogi tólf manna hópsins sem framdi hryðjuverkin í Barcelona í fyrradag. Telegraph greinir frá.
Ráðist var inn á heimili imamsins, sem hefur verið nafngreindur sem Abdelbaki Es Satty, í nótt en þar safnaði lögregla meðal annars DNA-sýnum úr Satty. Gætu sýnin tengt hann beint við byggingu í bænum Alcanar, þar sem talið er að árásin hafi verið skipulögð.
Sprenging varð í byggingunni á miðvikudag þar sem einn lést. Talið er hugsanlegt að það hafi verið Satty, en lögregla telur að árásarmennirnir hafi verið að útbúa sprengjur í húsinu þegar sprengingin varð.
Í spænskum miðlum er haft eftir heimildarmönnum að Satty hafi verið andlegur leiðtogi árásarmannanna. Er hann sagður hafa hvatt þá áfram og hjálpað þeim að skipuleggja árásina.
Lögreglan telur að í hópurinn sem stóð fyrir hryðjuverkunum hafi talið tólf manns. Fimm hafa verið skotnir til bana, fjórir eru í haldi lögreglunnar en þriggja er enn leitað.
Spænska lögreglan birti í gær nöfn þriggja karlmanna frá Marokkó og eins spænsks ríkisborgara sem grunaðir eru um hryðjuverkin. Þrír mannanna voru skotnir til bana af spænskum öryggissveitum í bænum Cambrils. Hétu þeir Moussa Oukabir sem var 17 ára, Said Aallaa sem var 18 ára og Mohamed Hychami sem var 24 ára. Fjórði maðurinn var nafngreindur sem 22 ára gamli Younes Abouyaaqoub.
Leitin beinist nú að Abouyaaqoub. Í fyrstu var talið að hinn sautján ára gamli Moussa Oukabir hefði ekið bílnum. Lögreglustjórinn Josep Trapero sagði seint í gærkvöldi að nú væri kenningin sú að Abouyaaqoub hefði ekið bílnum, ekki Oukabir.
Oukabir er grunaður um að hafa notað skilríki bróður síns til að leigja sendibílinn sem síðar var ekið á mannfjöldann. Hann leigði einnig annan bíl sem fannst nokkrum klukkustundum síðar í bænum Vic, norður af Barcelona. Sá er talinn hafa átt að þjóna hlutverki flóttabíls.
Lögreglan telur að hryðjuverkamennirnir hafi ætlað sér að fremja fleiri árásir.