Oftar kallað svarta rasista en hvíta

Samantekt á nokkrum tístum Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Samantekt á nokkrum tístum Donalds Trump Bandaríkjaforseta. AFP

„Heimskur rasisti“, „rasisti (og leiðinlegur)“, „algjör rasisti“, „hatari og rasisti“, „mjög mikill rasisti“. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur notað orðin „rasisti“ og „rasismi“ að minnsta kosti 54 sinnum á Twitter. Í meirihluta þessara tilvika hefur hann beint orðum sínum að ákveðnum einstaklingum eða hópum fólks. Ásakanirnar fylgja ákveðnu mynstri: Trump hefur sakað svarta um rasisma þrisvar sinnum oftar en hvíta.

Frá atburðunum í Charlottesville um síðustu helgi, þar sem hvítir rasistar komu saman til að mótmæla og fjöldi annars fólks mætti einnig til að andmæla málstað þeirra, hefur Trump sætt gagnrýni fyrir að taka ekki harða afstöðu gegn rasistunum. Í hópi þeirra voru nýnasistar og félagar í ýmsum samtökum, s.s. Ku Klux Klan. Trump tjáði sig ekki um málið fyrr en á mánudag og fordæmdi þá „hatrið, ofstækið og ofbeldið.“ Slíkt ætti ekki heima í Bandaríkjunum. Hann nefndi enga sérstaka hópa á nafn í yfirlýsingum sínum heldur sagði þá og ítrekaði síðar að sökin lægi hjá báðum fylkingum. Vinstri öfgamenn hefðu verið „mjög, mjög ofbeldisfullir“ og ráðist gegn hinum svokölluðu hægri öfgamönnum.

Aðrir, m.a. flokksfélagar hans í Repúblikanaflokknum, hafa gengið lengra í fordæmingu sinni. Í þeim hópi eru feðgarnir og fyrrverandi forsetarnir, George Bush og George W. Bush. Ivanka Trump, dóttir forsetans var mun afdráttarlausari en en karl föður hennar og skrifaði á Twitter: 

Barack Obama, fyrrverandi forseti birti svo táknræna færslu á Twitter í kjölfar atburðanna í Charlottesville:

Trump hefur í gegnum tíðina ítrekað verið sakaður um fordóma í garð ýmissa hópa, s.s. svartra, múslíma, Mexíkóa og kvenna. Með ummælum sínum hefur hann ýmist móðgað fólk, sært eða hneykslað.  

Sé aðeins litið til skrifa hans á Twitter hefur hann oftast sakað tvo menn um rasisma, líkt og fram kemur í ítarlegri greiningu á ummælum hans á vef Washington Post sem byggð er á safni tísta Trumps.

Annar þeirra er Touré, fyrrverandi þáttastjórnandi á MSNBC. Trump sakaði hann um kynþáttafordóma í að minnsta kosti tíu skipti í netdeilu þeirra á tólf mánaða tímabili á árunum 2012-2013.

Deilan hófst er Touré fjallaði um gjaldþrot sem tengdust Trump.

Í ágúst árið 2013 skrifaði Trump svo sex færslur á Twitter þar sem hann sakaði Bryant Gumbel, íþróttafréttamann á HBO, um að vera rasista. Þetta gerði hann í kjölfar þess að Gumbel fjallaði um golfvelli í eigu Trumps.

Trump hefur svo einnig sakað þáttastjórnandann Tavis Smiley um rasisma og sömuleiðis Barack Obama, fyrrverandi forseta, sem hann kallaði „algjöran rasista“.

Trump hefur sjö sinnum ásakað hvítt fólk um rasisma, m.a. Hillary Clinton, þingmanninn Elizabeth Warren og þáttastjórnandann David Letterman.

Í að minnsta kosti níu færslum hefur Trump svo afneitað því að vera rasisti sjálfur eða krafið fólk um afsökunarbeiðni fyrir að hafa kallað sig rasista.

Rímar við skoðanir rasistahópa

Að kalla svart fólk rasista rímar vel við þær skoðanir hvítra rasistahópa, eins og þeirra sem komu saman í Charlottesville, að í Bandaríkjunum nútímans sé hvítu fólki mismunað meira en svörtu. Þessir hópar hafa til dæmis sagt að í skólakerfinu og heilbrigðiskerfinu sé hvítum mismunað, m.a. þegar komi að styrkjum til náms og læknismeðferða. Þeir segja að „stríð gegn hvítum“ standi yfir í landinu.

Félagar í Ku Klux Klan voru meðal þeirra sem mótmælu …
Félagar í Ku Klux Klan voru meðal þeirra sem mótmælu í Charlottesville. AFP

Þessar skoðanir eru ekki eingöngu bundnar við hópa sem aðhyllast kynþáttahyggju. Í könnun sem ABC-fréttastofan gerði í mars árið 2016 kom í ljós að 54% þeirra sem sögðust styðja Trump sem forsetaefni Repúblikanaflokksins töldu að hvítum væri mismunað meira en svörtum í landinu. Aðrar kannanir hafa sýnt svipaða niðurstöðu.

Trump hefur árum saman látið falla vafasöm ummæli sem margir hafa túlkað sem fordómafull. Mörg þeirra beindust að Barack Obama en hann efaðist bæði um uppruna hans og trúarbrögð. Í mars árið 2011 sagði Trump þetta um málið í útvarpsviðtali: „Hann á ekki fæðingarvottorð, og ef hann gerir það er eitthvað á því sem er mjög slæmt fyrir hann. Einhver sagði mér, og ég veit ekki hvort það er slæmt fyrir hann eða ekki, en kannski myndi standa „múslimi“ undir „trúarbrögð“ [á vottorðinu]. Og ef þú ert múslimi þá skiptir þú ekki um trú svo því sem haldið til haga.“

Hulduher Sýrlendinga

Á kosningafundi í New Hampshire í september árið 2015 hét svo Trump því að vísa öllum sýrlenskum flóttamönnum, sem flestir eru múslimar, úr landi. „Þeir gætu tilheyrt Ríki íslams, ég veit það ekki. Þetta gæti verið stærsta samsæri allra tíma. 200.000 manna her kannski.“ Hann ítrekaði svo þessa skoðun sína í viðtali síðar og sagði: „Þetta gæti fengið Tróju-hestinn til að líta út sem smáræði.“

Trump sagði svo í viðtali við CNN í mars árið 2016: „Ég held að íslam hati okkur. Það er eitthvað þarna, þar er gríðarlegt hatur þarna.“

Donald Trump er mjög virkur á Twitter. Þar hefur hann …
Donald Trump er mjög virkur á Twitter. Þar hefur hann ítrekað kallað fólk öllum illum nöfnum. Trump er í einu áhrifamesta starfi heims. AFP

Í kosningabaráttunni í fyrra hneykslaði og særði Trump svo marga er hann sagði Mexíkóa vera „glæpamenn“ og „nauðgara“. Því yrði að byggja vegg á landamærunum til að halda þeim í burtu.

Nokkrum mánuðum síðar var hann svo orðinn forseti Bandaríkjanna. Hann heldur þó áfram að valda usla á Twitter og víðar með ummælum sínum.

En getur verið að Trump láti einfaldlega svona orð falla um alla, hvíta og svarta, karla og konur?

Hann er vissulega þekktur fyrir að vera blátt áfram og stundum er engu líkara en að hann segi hluti í hugsunarleysi. Útvarpsmaðurinn Armstrong Williams, sem er svartur og hefur lengi stutt Trump segir að ef James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, og Reince Priebus, fyrrverandi samskiptastjóri Hvíta hússins, hefðu verið svartir, hefði Trump verið sakaður um rasisma er hann rak þá.

„Það er ekki hægt að binda þetta við kynþætti. Svona er hann bara. Hann er óagaður og veldur ónauðsynlegum sársauka með því sem hann segir og hann hefur gert það allt sitt líf. En forsetinn kemur eins fram við alla, því miður.“

Donald Trump sagði að báðum fylkingum hefði verið um að …
Donald Trump sagði að báðum fylkingum hefði verið um að kenna hvernig fór í Charlottesville um síðustu helgi. Mótmælendur gripu þau orð á lofti. AFP

Williams segir í viðtali við Washington Post að svo virðist sem Trump skilji ekki sögu nýnasismans og hvítra kynþáttahatara. Hann hefði átt að gagnrýna þessa hópa sérstaklega í kjölfar atburðanna í Charlottesville. „Og við sem bundum svo miklar vonir við hann erum bara uppgefin, því þetta er svona á hverjum degi. Fólk upplifir þetta sem svik. Innan skamms mun hann ekki njóta stuðning neins, því þegar farið er að tala um nasista og kynþáttahatara, hver ætlar að verja hann í því?“

Takk, Trump

Að minnsta kosti einn maður hefur fagnað afstöðu Trumps opinberlega. Sá heitir David Duke og er fyrrverandi leiðtogi Ku Klux Klan. „Takk Trump forseti fyrir hreinskilni þína og kjark til að segja sannleikann um Charlottesville og fordæma vinstri hryðjuverkamennina,“ skrifaði hann á Twitter.

Duke er einn þeirra sem tók þátt í mótmælum rasista í Charlottesville. Hann sagði að hópurinn hefði haft leyfi til að halda ræður, en margir hefðu ekki viljað leyfa því að gerast. „Því við erum að segja sannleikann. Við erum að segja sannleikann um þjóðernishreinsanir í Bandaríkjunum og eyðileggingu á amerískum lífsstíl.“

Greinin er byggð á fréttum og fréttaskýringum GuardianWashington Post, CNN, Newsweek, New York Times o.fl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert