Þau sem létust í Barcelona

Þau létust í hryðjuverkaárásinni.
Þau létust í hryðjuverkaárásinni. Samsett mynd

Fjórtán hafa látist eftir hryðjuverkaárásina í Barcelona á fimmtudag þegar sendiferðabíl var ekið var á hóp fólks á Römblunni. Nöfn nokkurra þeirra hafa verið opinberuð og hér er það sem við vitum um fórnarlömbin.

Jared Tucker og eiginkona hans, Heidi.
Jared Tucker og eiginkona hans, Heidi.

Jared Tucker, 42 ára frá Bandaríkjunum:

Jared og eiginkona hans, Heidi, voru í Barcelona til að fagna fyrsta brúðkaupsafmæli sínu. Síðustu myndirnar sem þau sendu heim til Kaliforníu bárust daginn fyrir árásina. Heidi sagði í samtali við NBC-fréttastofuna að hún og Jared hefðu verið að fá sér drykk þegar hann sagðist ætla að fara á salernið. 

„Það næsta sem ég veit er að ég heyri öskur og óp,“ sagði Heidi. „Mér var ýtt inn í minjagripaverslun þar sem ég faldi mig á meðan allir hlupu öskrandi fram hjá.“

Jared var þriggja barna faðir, en hann átti þrjár dætur. Faðir hans, Dan, sagði í samtali við fréttastofuna að hann hefði aldrei séð son sinn eins hamingjusaman og síðastliðið ár. Feðgarnir höfðu starfað saman í fyrirtæki fjölskyldunnar frá því Jared var 16 ára.

Faðirinn sagði sína einu huggun vera þá að Jared hafi líklega dáið hamingjusamur.

Bruno Gulotta.
Bruno Gulotta.

Bruno Gulotta, 35 ára frá Ítalíu:

Gulotta var í fríi í Barcelona með eiginkonu sinni, Martinu, og tveimur börnum þeirra; Alessandro og Ariu. Gulotta hefur verið kallaður hetja í ítölskum miðlum fyrir að hafa fórnað lífi sínu fyrir börn sín þegar hann stökk fyrir framan þau er bíllinn ók að fjölskyldunni.

Fjölskyldan hafði verið á ferðalagi um Evrópu, og meðal annars komið við í Cannes í Frakklandi. 

Gulotta starfaði hjá tölvu­fyr­ir­tæk­inu Tom‘s Hardware, sem greindi frá láti hans á Face­book-síðu sinni. „Hvíldu í friði Bruno og verndaðu ástvini þína frá himnum,“ stóð í færslunni.

Luca Russo.
Luca Russo.

Luca Russo, 25 ára frá Ítalíu:

Russo er sagður hafa látist fyrir framan kærustu sína, Mörtu Scomazzon, en hún var flutt á sjúkrahús með minniháttar meiðsl eftir árásina. Sagði hún fjölskyldumeðlimum að þau Russo hefðu verið að labba saman þegar bíllinn keyrði á þau.

Systir Russo, Chiara, hefur biðlað til almennings á Facebook-síðu sinni að hjálpa til við að fá lík hans flutt heim. 

Russo var útskrifaður verkfræðingur. „Við vorum að fjárfesta í honum, við vildum að hann fengi að vaxa í starfi,“ sagði einn yfirmanna hans hjá verktakafyrirtæki þar sem hann starfaði. Þá hafa fleiri samstarfsmenn hans sagt í samtali við fjölmiðla að hann hafi verið ákveðinn og harðduglegur ungur maður.

„Hann hlaut gráðuna sína með snilldarlegum hætti og fór svo beint að vinna,“ sagði rektor háskólans sem Russo útskrifaðist frá.

Elke Vanbockrijck.
Elke Vanbockrijck.

Elke Vanbockrijck, 44 ára frá Belgíu:

Vanbockrijck hafði verið í fríi í Barcelona með eiginmanni sínum og sonum þeirra. Bæjarstjóri Tongeren, bæjarins þar sem hún bjó, sagði í belgísku útvarpi að hann hafi stýrt brúðkaupi þeirra hjóna árið 2014.

Þá sagði Arnould Partoens, framkvæmdastjóri KFC Heur Tongeren fótboltaliðsins, að Vanbockrijck hafi verið á vellinum nánast daglega með syni sína sem eru 10 og 14 ára gamlir. 

„Hún var alltaf jákvæð,“ sagði Partoens. Þá sagði hann eiginmann Vanbockrijck og syni hennar tvo hafa sloppið ómeidda. „Móðirin var á röngum stað á röngum tíma,“ sagði hann.

Francisco Lopez Rodriguez og eiginkona hans.
Francisco Lopez Rodriguez og eiginkona hans.

Francisco Lopez Rodriguez, 57 ára frá Spáni:

Rodriguez lést samstundis þegar hann varð fyrir sendiferðabílnum að sögn fjölskyldu hans. „Fjölskylda okkar er í molum,“ sagði frænka hans á Twitter-síðu sinni.

Bæjarstjóri Lanteira, spænska bæjarins þar sem Rodriguez fæddist, hefur einnig staðfest lát hans. Ættingar hans hafa sagt fjölmiðlum að hann hafi verið vélamaður. 

Rodriguez var á göngu á Römblunni þegar hryðjuverkin voru framin. Eiginkona hans, sem hann bjó með í Rubi, nærri Barcelona, slasaðist alvarlega í árásinni.

Ian Moore Wilson og eiginkona hans, Valerie.
Ian Moore Wilson og eiginkona hans, Valerie.

Ian Moore Wilson frá Kanada:

Dóttir Wilson, lögreglukonan Fiona Wilson, hefur sagt í samtali við fjölmiðla að faðir hennar hafi verið ljúfur, örlátur, ævintýragjarn og alltaf tilbúinn í líflega rökræðu. Sagði hún hann jafnframt hafa lifað heilsusamlegu lífi með eiginkonu hans til 53 ára, Valerie móður hennar.

„Andlát föður míns skilur eftir sig stórt skarð í okkar nánu fjölskyldu. Hann var elskaður af öllu hjarta af okkur öllum og verður sárlega saknað,“ sagði Fiona.

Frétt Sky fréttastofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert