Fundu leifar af TATP-sprengjuefni

Frá húsleitinni í Alcnar.
Frá húsleitinni í Alcnar. AFP

Leifar af svokallaðri TATP-sprengju fundust í húsleit í spænska bænum Alcanar, um 200 kílómetra suður af Barcelona. Frá þessu greindi spænska lögreglan í morgun en talið er að hryðjuverkamennirnir sem gerðu árásirnar í Barcelona og Cabrils í síðustu viku hafi notað húsið til sprengjuframleiðslu.

Mjög algengt er að hryðjuverkamenn smíði TATP-sprengjur þar sem afar auðvelt er að nálgast efnin sem þarf til verksins, einfaldlega úti í búð. Svo sem naglahreinsi sem er í eðli sínu aseton og súrefnisbundið vatn sem er mikið notað sótthreinsunarefni. 

Þýskur efnafræðingur upptvötaði sprengjuna seint á 19. öld og nota í dag hryðjuverkahópar allt frá Brussel og París yfir til átakasvæða Íraks og Sýrlands sprengjurnar. Í frétt AFP segir að hryðjuverkamenn hafi sett upp heilu rannsóknarstofurnar í Sýrlandi og Írak til framleiðslu sprengjanna, fyrst í bakherbergjum húsa en í vaxandi mæli séu þeir að færa sig yfir í þróaðri verksmiðjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert