Julian litli er látinn

Julian Alessandro Cadman varð viðskila við móður sína í hryðjuverkaárásinni …
Julian Alessandro Cadman varð viðskila við móður sína í hryðjuverkaárásinni í Barcelona. Ljósmynd/Facebook

Bresk-ástralski drengurinn sem saknað var eftir hryðjuverkin í Barcelona er látinn. Þetta hafa lögregluyfirvöld staðfest í samtali við AFP-fréttastofuna.

Afi drengsins var sá sem fyrst lýsti eftir drengnum sem hét Julian Cadman. Hann er því í hópi fjórtán fórnarlamba árásarinnar. Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Julians segir að hann hafi verið „umvafin ást og dýrkaður af fjölskyldu sinni“.

Fréttir af hvarfi drengsins hafa verið mjög misvísandi í fjölmiðlum en móðir hans slasaðist alvarlega í árásinni og varð þar með viðskila við drenginn. „Á meðan hann var að njóta þess að skoða sig um í Barcelona með móður sinni var hann því miður tekinn frá okkur,“ segir í yfirlýsingu fjölskyldu hans. „Hann var svo orkumikill, fyndinn og frakkur og fékk okkur öll til að brosa. Við erum svo heppin að hafa átt hann að og munum minnast brosa hans og halda minningu hans á lífi svo lengi sem við lifum.“

Rangar fréttir 

Í gær sögðu spænskir fjölmiðlar frá því að hann hefði fundist og lægi slasaður á sjúkrahúsi. Þessar fréttir bar spænska lögreglan til baka og sagðist ekki hafa fundið barn og ekki vera að leita að barni eftir hryðjuverkin.

Þetta renndi stöðum undir þá kenningu að Julian litli væri látinn sem hefur nú verið staðfest.

Afi drengsins og faðir hans, sem báðir eru búsettir í Ástralíu, eru komnir til Spánar. Yfirvöld á Spáni segja að skýringin á því að ekki var hægt að upplýsa um andlát Julians fyrr hafi verið sú að náinn fjölskyldumeðlimur varð að bera kennsl á lík hans. Það hafi nú verið gert.

Þar með er búið að bera kennsl á tólf hinna fjórtán fórnarlamba árásarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert