Spænsk yfirvöld telja sig hafa fundið lík hins sjö ára gamla Julian Alessandro Cadman, sem hefur verið saknað eftir hryðjuverkin í Barcelona á fimmtudag. Enn á hins vegar eftir að bera formlega kennsl á líkið. Breski miðillinn Telegraph greinir frá þessu.
Dagblaðið El País greindi frá því í gær að Julian væri kominn í leitirnar og dveldi á sjúkrahúsi. Lögreglan í Katalóníu gaf í kjölfarið út yfirlýsingu um að þetta væri ekki rétt. Í færslu á Twitter skrifaði lögreglan: „Við erum hvorki að leita né höfum við fundið týnt barn eftir árásina í Barcelona. Vitað er um afdrif allra fórnarlambanna.“
Leit stendur því ekki yfir að barni, sem þykir renna stoðum undir það að lögregla hafi fundið lík drengsins.
Julian sem er bæði breskur og ástralskur ríkisborgari, varð viðskila við móður sína í öngþveitinu sem skapaðist í kjölfar árásarinnar á Römblunni á fimmtudag. Fjórtán létust og yfir 130 særðust í árásinni.
Móðir drengsins særðist alvarlega í árásinni og liggur á sjúkrahúsi. Eiginmaður hennar og faðir drengsins flaug til Spánar frá Ástralíu í gær. Áður hafði afi drengsins komið til Spánar á föstudag.
Afinn Tony Cadman deildi mynd af Julian á Facebook eftir árásina þar sem hann biðlaði til notenda samfélagsmiðla að láta vita ef það fréttist af barnabarni hans. Færslunni hefur nú verið eytt.
„Barnabarn mitt, Julian Alessandro Cadman, er týndur [...] Við höfum fundið Jom tengdadóttur mína á sjúkrahúsi og ástand hennar er alvarlegt en stöðugt,“ sagði í færslu Cadman, sem var deilt yfir 30 þúsund sinnum.
Bresk yfirvöld greindu einnig frá því að þau rannsökuðu fregnir af því að bresks barns væri saknað eftir hryðjuverkaárásina.
Spænsk yfirvöld hafa upplýst að alls hafi 130 manns slasast í árásunum í Barcelona og Cambrils og er ástand 17 þeirra talið alvarlegt. 13 létust þegar flutningabíl var ekið á gangandi vegfarendur á Römblunni og ein kona lést á sjúkrahúsi, vegna þeirra sára sem hún hlaut er ekið var á sjö vegfarendur í Cambrils.