Imam, sem talinn er hafa verið leiðtogi tólf manna hópsins sem framdi hryðjuverkin í Barcelona í síðustu viku, er látinn. Þetta hefur spænska lögreglan staðfest að því er fram kemur í frétt AFP-fréttastofunnar.
Abdelbaki Es Satty lést þegar sprenging varð í byggingu í bænum Alcanar á miðvikudag, þar sem árásarmennirnir útbjuggu sprengjur. Greint hafði verið frá því að einn hafi látist í sprengingunni, en lögregla hefur nú staðfest að það var Satty.
„Það er staðfest. Líkamsleifar imamsins voru þar,“ sagði talsmaður lögreglu í dag.
Í spænskum miðlum hefur verið haft eftir heimildarmönnum að Satty hafi verið andlegur leiðtogi árásarmannanna. Er hann sagður hafa hvatt þá áfram og hjálpað þeim að skipuleggja árásina.
Lögreglan í Katalóníu réðst inn á heimili imamsins í bænum Ripoll aðfaranótt laugardags en þar safnaði lögregla meðal annars DNA-sýnum úr Satty.
Frétt mbl.is: Skotinn til bana af lögreglunni
Eins og mbl.is greindi frá í dag skaut lögreglan í Katalóníu mann til bana í dag, en staðfest hefur verið að það var Younes Abouyaaqoub, sem er grunaður um að hafa ekið sendiferðabílnum á gangandi vegfarendur á Römblunni. Þrettán manns fórust og yfir 130 særðust í hryðjuverkaárásinni.
Lögreglan telur að hópurinn sem stóð fyrir hryðjuverkunum hafi talið tólf manns. Lögreglan telur að hryðjuverkamennirnir hafi ætlað sér að fremja fleiri árásir.