Lögreglan í Katalóníu hefur staðfest að maðurinn sem var skotinn til bana fyrr í dag sé Younes Abouyaaqoub, sem er grunaður um að hafa ekið sendiferðabíl á gangandi vegfarendur í Barcelona í síðustu viku.
Þrettán manns fórust og fjöldi særðist í hryðjuverkaárásinni í Barcelona.
Líklegt var talið að Abouyaaqoub hafi verið sá sem lögreglan skaut til bana og núna hefur það verið staðfest.
Fjórum dögum eftir að hafa ekið sendiferðabílnum eftir Römblunni skaut lögreglan manninn til bana í þorpinu Subirats um 60 kílómetrum vestur af Barcelona.
Abouyaaqoub var með sprengjubelti á sér en ekki er ljóst hvort það var ekta.
Roser Ventura, sem starfar á vínekru skammt frá, sagðist við AFP-fréttastofuna hafa séð um 20 lögreglubíla aka framhjá með sírenum, auk þess sem þyrlur sveimuðu yfir svæðinu.
Um 300 manns búa í Subirats.
Arnau Gomez, sem býr skammt frá, sagði þorpið vera tilvalinn felustað vegna þess hversu afskekkt það er.
#Barcelona terror suspect Younes Abouyaaqoub has been shot dead by police in Subirats, officials confirm pic.twitter.com/xthljiviUD
— Sky News (@SkyNews) August 21, 2017