Lögreglan í Katalóníu hefur skotið til bana mann sem hugsanlega er Younes Abouyaaqoub sem er talinn hafa ekið sendiferðabíl á gangandi vegfarendur í Barcelona í síðustu viku.
„Þeir hafa skotið til bana grunaðan mann sem gæti hafa framkvæmt árásina,“ sagði heimildarmaður AFP.
Þrettán manns fórust og fjöldi særðist í árásinni í Barcelona.
Lögreglan hefur ekki staðfest að Abouyaaqoub sé sá sem hafi verið skotinn.
Spænskir fjölmiðlar segja að maðurinn hafi verið með sprengjubelti á sér þegar hann var handtekinn, að því er The Telegraph greindi frá.
Abouyaaqoub hefur verið eftirlýstur af lögreglunni eftir hryðjuverkaárásina.
Talið er að lögreglan hafi skotið manninn á vegi í Subirats, vestur af Barcelona, að því er BBC greindi frá.
Fyrr í dag óskaði lögreglan eftir upplýsingum um hinn 22 ára Abouyaaqoub, sem talinn er vera sá síðasti í tólf manna hópi sem er grunaður um að hafa skipulagt hryðjuverkaárásina í síðustu viku.
Fimm þeirra hafa verið skotnir til bana, fjórir hafa verið handteknir og tveir eru hugsanlega látnir eftir eldsvoða.
Spanish media reporting that Barcelona attack suspect Younes Abouyaaqoub has been arrested and a man with an explosive belt has been shot pic.twitter.com/CS0rCFep7x
— Sky News (@SkyNews) August 21, 2017