Marokkómaðurinn Younes Abouyaaqoub, sem talinn er hafa ekið flutningabílnum sem varð 13 manns að bana á Römblunni í Barcelona á fimmtudag, virtist hafa aðlagast spænsku samfélagi vel.
Það sama segja aðrir íbúar katalónska smábæjarins, þar sem hann óx úr grasi, um yngri bróður hans sem tilheyrði sömu sellu.
Spænska lögreglan greindi frá því í dag að hún hefði drepið hinn 22 ára Younes Abouyaaqoub skammt frá Barcelona eftir mikla leit undanfarna fjóra daga. Abouyaaqoub flúði fótgangandi eftir að hafa ekið flutningabílnum inn í mannþröngina, stal því næst bíl, stakk ökumanninn til bana og ók á brott.
„Ég er ánægður og sorgbitinn á sama tíma,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Hassan Azzidi, marokkóskum verksmiðjustarfsmanni í bænum Ripoll. Fjöldi tólfmenninganna, sem lögregla telur hafa skipulagt árásina í Barcelona og í bænum Cambrils, kom frá Ripoll.
„Þessu varð að ljúka, af því að það er eins og við séum að upplifa stríð, en á sama tíma þá var það einhver sem náði að heilaþvo þennan unga strák.
„Younes lifði venjulegu lífi. Hann vann í verksmiðju og hafði allt sem hann þurfti. Ég veit ekki hvernig þeir komast inn í huga þeirra,“ sagði Azzidi.
Spænska lögreglan grunar imaminn Abdelbaki Es Satty um að hafa gert Younes, Houseinn bróður hans og níu aðra unga menn sem tilheyrðu sellunni að íslömskum öfgatrúarmönnum. Greint var frá því nú í kvöld að Es Satty hafi dáið í sprengingu sem varð í bænum Alcanar á miðvikudagskvöld, en talið er að mennirnir hafi ætlað sér að búa til sprengjur og standa að mun stórfelldari árás en síðar varð.
Rétt eins og eldri bróðir hans féll Houssein Abouyaaqoub fyrir hendi lögreglu. Houssein ók í félagi við fjóra aðra inn í hóp gangandi vegfarenda í bænum Cambrils seint á fimmtudagskvöld. Einn þeirra fór því næst út úr bílnum og stakk konu. Hún lést síðar af sárum sínum.
AFP-fréttastofan segir íbúa Ripoll, sem er 11.000 manna bær, vera í áfalli. 5% íbúa bæjarins koma frá Marokkó.
Á kaffihúsinu Esperanza Moroccan segja menn sem þar spila á spil að þeim finnist imaminn hafa svikið sig. Hann hafi reynst úlfur í sauðargæru og hafi haft áhrif á drengina.
Nuria Perpinya hjálpaði sumum drengjanna að læra heima. Hún tók þátt í félagslegu verkefni við að draga úr félagslegri einangrun og minnist þeirra hlýlega sem „venjulegra drengja“ sem höfðu aðlagast katalónsku samfélagi.
Í bænum M'rirt í Marokkó saka ættingjar Abouyaaqoub-bræðranna imaminn einnig um að hafa gert þá að öfgatrúarmönnum. AFP hefur eftir afa bræðranna að síðastliðin tvö ár hafi bræðurnir, sem til þessa höfðu heimsótt hann á hverju sumri, orðið róttækari í skoðunum og að það hafi verið fyrir tilstilli imamsins.