Spænska lögreglan greindi frá því í morgun að kennsl hefðu verið borin á ökumann sendibílsins sem ók inn í hóp fólks á Römblunni í Barcelona í síðustu viku. 13 létust í árásinni.
Lögreglan í Katalóníu greinir frá þessu á Twitter án þess að nafngreina ökumanninn. Joaquim Forn, sem fer með innanríkismál í Katalóníu, sagði í útvarpsviðtali í morgun að allt benti til þess að Younes Abouyaaqoub hefði ekið bifreiðinni.
Abouyaaqoub, sem er 22 ára frá Marokkó, er eftirlýstur en ekki er vitað hvort hann er enn á Spáni eða hefur komist úr landi.
Yfirvöld á Spáni hafa haft samband við lögregluyfirvöld í öðrum ríkjum Evrópu og er hann eftirlýstur um nánast alla álfuna, að sögn Forn.