Sagrada Familia-kirkjan og fleiri þekkt minnismerki í Barcelona voru meðal þeirra staða sem hryðjuverkahópurinn, sem stóð fyrir árásinni í Barcelona og Cambrils í síðustu viku, ætlaði að beina aðgerðum sínum gegn.
BBC segir þetta hafa komið fram í vitnisburði eins fjórmenninganna sem komu fyrir dómara í dag. Mohamed Houli Chemlal viðurkenndi fyrir dómara í Madrid í dag að hann og félagar hans hefðu skipulagt stærri árásir.
Houli Chemlal slasaðist þegar gassprenging varð í húsi í Alcanar á miðvikudagskvöldið í síðustu viku, þar sem hryðjuverkahópurinn var að útbúa gassprengjur. Daginn eftir ók hluti hópsins flutningabíl á gangandi vegfarendur á Römblunni í Barcelona með þeim afleiðingum að 13 manns létu lífið og yfir hundrað slösuðust. Þá ók hluti hópsins síðar um kvöldið á gangandi vegfarendur í strandbænum Cambrils og særði sex, auk þess sem einn þeirra stakk konu með hnífi. Hún lést síðar af sárum sínum.
Younes Abouyaaqoub, sem keyrði flutningabílinn inn í mannmergð á Römblunni, stakk síðar til bana ökumann bíls sem hann stal til að flýja af árásarvettvangi. Hann var drepinn af lögreglu í gær.
Átta félagar í hryðjuverkahópnum er nú látnir, tveir fórust í sprengingunni í Alcanar og sex voru skotnir af lögreglu, m.a. fimmmenningarnir sem óku á vegfarendur í Cambrils.
Þeir fjórir sem nú eru í haldi lögreglu sæta nú hámarksöryggisgæslu í fangelsi, en dómari úrskurðaði í dag að Mohammad Aalla, eigandi bifreiðarinnar sem notuð var til að aka á vegfarendur í Cambrils, skyldi látinn laus. Sagði dómarinn í úrskurði sínum að ekkert benti til þess á þessu stigi að hann hefði átt þátt í árásinni, utan þess að hafa lánað bróður sínum bílinn.
Honum er þó bannað að yfirgefa Spán og er gert að gefa sig reglulega fram við lögreglu.