Hjónin George og Amal Clooney hafa nú gefið milljón dollara til mannréttindasamtakanna Southern Poverty Law Center, sem fylgjast með starfi haturshópa. AFP-fréttastofan segir fjárgjöfina tilkomna vegna ofbeldisaðgerðanna í Charlottesville fyrir rúmri viku.
AFP segir Clooney hjónin ekki vera ein um að styrkja mannréttindasamtök í kjölfar atburðanna í Charlottesville, en samtökin hafi fundið fyrir auknum velvilja í kjölfar þeirra.
„Það sem átti sér stað í Carlottesville og það sem á sér stað í samfélögum víðs vegar um landið krefst þess að við stöndum öll upp gegn hatri,“ sagði í yfirlýsingu Clooney-hjónanna þegar tilkynnt var um styrkinn.
„Við erum stolt af því að styðja Southern Poverty Law Center í aðgerðum þeirra til að koma í veg fyrir ofbeldisaðgerðir öfgasamtaka í Bandaríkjunum.“