Réttarhöldum yfir grínistanum Bill Cosby sem áttu að hefjast á nýjan leik í nóvember hefur verið frestað til næsta árs svo að nýir verjendur hans fái tíma til að undirbúa sig.
Tom Mesereau, sem er þekktur fyrir að hafa náð fram sýknudómi í máli gegn popparanum sáluga Michael Jackson árið 2005, verður aðalverjandi Cosby í málinu. Áður höfðu þau Brian McMonagle og Angela Agrusa yfirgefið lögfræðiteymið.
Réttarhöldin áttu að hefjast 6. nóvember í Norristown í Pennsylvaniu, úthverfi borgarinnar Fíladelfíu. Fyrri réttarhöldin í málinu voru ómerkt eftir að kviðdómendur gátu ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu.
Dómarinn Steven O´Neill samþykkti ósk verjenda Cosby um að réttarhöldunum yrði seinkað. Ákvað hann að þau færu fram „innan tímarammans 15. mars til 1. apríl 2018“.