Verða færðir fyrir dómara í dag

Frá aðgerðum lögreglu í gær þegar You­nes Abouya­aqoub var skotinn …
Frá aðgerðum lögreglu í gær þegar You­nes Abouya­aqoub var skotinn til bana. AFP

Fjórir menn, sem sakaðir eru um að tilheyra hópnum sem stóð á bak við hryðjuverkaárásina í Barcelona í síðustu viku, koma fyrir dómara í Madríd í dag.

Dómari á eftir að ákveða ákærurnar gegn mönnunum en 15 létu lífið og yfir hundrað særðust þegar flutningabíl var ekið inn í mannmergð á Römblunni í Barcelona á fimmtu­dag.

Átta menn sem taldir eru tengjast hryðjuverkunum eru dánir, sumir létu lífið í sprengingu en aðrir voru skotnir til bana af lögreglu.

Mar­okkó­maður­inn You­nes Abouya­aqoub er tal­inn hafa ekið flutn­inga­bíln­um. Hann var með sprengjubelti á sér þegar lögregla skaut hann til bana í gær. Ekki er talið að um alvöru sprengjubelti hafi verið að ræða.

Fjórmenningarnir, sem færðir verða fyrir dómara í dag, voru fluttir frá Barcelona til Madríd en miklar öryggisráðstafanir voru gerðar fyrir flutningana. Dómari mun lesa ákæru á hendur mönnunum en talið er að mennirnir verði ákærðir fyrir hryðjuverk, morð og vopnaeign.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert