Franska ádeiluritið Charlie Hebdo birti ögrandi mynd á forsíðu blaðsins sem kom út í gær. Teiknarinn beinir sjónum að íslam og hryðjuverkaárásinni í Barcelona viku fyrr. Óttast ýmsir að með þessu geti vikuritið ýtt undir múslimahatur.
Charlie Hebdo hæðir öll trúarbrögð og trúarleiðtoga en lýsing blaðsins á Múhameð spámanni er álitin syndsamleg og hefur vakið reiði meðal fólks í gegnum tíðina. Starfsmenn ritsins hafa oft fengið morðhótanir og gerð var mannskæð árás á ritstjórn þess í janúar 2015.
Á forsíðu blaðsins sem kom út í gær eru sýndar tvær manneskjur liggjandi í blóði sínu eftir að sendibíl hefur verið ekið yfir þær. Við myndina stendur: Íslam trúarbrögð eilífs friðar (Islam Religion de paix éternelle!).
Á annan tug öfgamanna frá Marokkó eru taldir hafa undirbúið árásir í Barcelona og Cambrils í síðustu viku þar sem 15 létust og yfir 100 særðust. Sendibíl var ekið inn í hóp fólks í Barcelona og hluti hópsins ók síðar um kvöldið á gangandi vegfarendur í strandbænum Cambrils og særði sex, auk þess sem einn þeirra stakk konu með hnífi. Hún lést síðar af sárum sínum.
Þeir sem rannsaka árásirnar telja að öfgafullur íslamskur klerkur hafi öfgavætt árásarmennina en klerkurinn lést í sprengingu í húsnæði þar sem hópurinn var að undirbúa framleiðslu á sprengjum sem nota átti í nokkrum árásum á Spáni.
Gagnrýnendur Charlie Hebdo segja að forsíða blaðsins í gær ráðist gegn trúarbrögðum 1,5 milljarða jarðarbúa og gefi í skyn að íslam hvetji til ofbeldis.
Fátt var meira rætt á Twitter í Frakklandi í gær en forsíðan og um miðjan dag höfðu yfir 15 þúsund manns annaðhvort hrósað forsíðunni eða gagnrýnt hana.
Meðal þeirra sem gagnrýndu er þingmaður sósíalista og fyrrverandi ráðherra, Stephane Le Foll, sem taldi hana afar hættulega og varasama.
„Þegar þú ert blaðamaður verðurðu að temja þér hófstillingu því þetta getur verið notað af öðru fólki,“ sagði hann.
Ritstjóri Charlie Hebdo, Laurent „Riss“ Sourisseau, varði valið á forsíðuefninu í ritstjórnargrein og sagði að sérfræðingar og þeir sem væru stefnumarkandi forðuðust að svara erfiðum spurningum af umhyggjusemi við nútímalega þenkjandi múslíma. Umræðan og spurningar um hlut trúarinnar, einkum og sér í lagi hlut íslams, í þessum árásum væru algjörlega horfnar úr umræðunni.
Þegar árásin var gerð á ritstjórn Charlie Hebdo í janúar 2015 voru tólf drepnir á skrifstofunni, þar á meðal margir af helstu teiknurum blaðsins. Árásarmennirnir voru tveir en í kjölfarið fylgdu fleiri árásir öfgamanna í París og víðar.
Hundruð þúsunda tóku þátt í samstöðugöngum í Frakklandi nokkrum dögum eftir árásina en fólk flykktist á bak við slagorðið „Je suis Charlie“ (Ég er Charlie) til varnar málfrelsinu.
Riss sagði eftir árásirnar að blaðið myndi hætta að hæðast að Múhameð spámanni á sama hátt og áður. Einn helsti blaðamaður ádeiluritsins sagði upp í kjölfarið og sagði blaðið sýna íslömskum öfgamönnum of mikla mildi með þessu.