Stjórnvöld á Spáni ætla að fara þess á leit við þjóðarleiðtoga Frakklands, Ítalíu og Þýskalands að samstarf þvert á landamæri í aðgerðum gegn hryðjuverkum verði til umræðu á leiðtogafundinum í París á mánudag.
Reuters segir Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hafa greint frá þessu í dag, en rúm vika er nú frá því að 15 manns létust og rúmlega hundruð slösuðust í hryðjuverkaárás á Römbluna í Barcelona og strandbæinn Cambrils.
Rajoy lofaði aðgerðir lögreglu, þrátt fyrir aukna gagnrýni í hennar garð vegna samskiptaleysis milli rannsakenda. Greint var frá því í gær að óformleg ábending frá belgískum yfirvöldum hefði aldrei ratað til spænsku hryðjuverkalögreglunnar. Í ábendingunni var varað við imaminum Abdelbaki Es Satty, sem talinn er hafa gert marokkósku drengina, sem framkvæmdu árásirnar, að íslömskum öfgatrúarmönnum.
Katalónska lögreglan fann ekkert í sínum gögnum um tengsl Es Satty, sem þá bjó í katalónska bænum Ripoll, við íslömsk öfgatrúarsamtök og ekkert frekar var aðhafst í málinu.
Rajoy sagði fréttamönnum að hann vildi að ríki ESB kryfji núverandi samstarf sitt í þessum efnum og leiti leiða til að bæta það.
Hryðjuverkaárásin á Spáni hefur vakið upp spurningar um það hvernig yfirvöld í Evrópu deili með sér upplýsingum, sem og samstarf héraðslögreglunnar á Spáni við ríkislögregluna.
Yfirvöld á Spáni eru nú að rannsaka möguleg tengsl hryðjuverkahópsins við Frakkland, en komið hefur í ljós að nokkrir úr hópnum fóru til Parísar fyrir árásina.