Hryðjuverkahópurinn sem gerði árásirnar á Spáni í vikunni sem leið var undir forystu ímams sem er sagður hafa verið mjög útsmoginn í að villa á sér heimildir og leyna því að hann væri íslamisti. Rannsókn málsins hefur einnig leitt í ljós að hryðjuverkamennirnir notuðu aldrei fjarskiptatæki, hvorki tölvur né síma, til að minnka líkurnar á því að yfirvöld gætu komist á snoðir um hryðjuverkastarfsemi þeirra.
Ímaminn hét Abdelbaki Es Satti, var rúmlega fertugur og fæddist í þorpi nálægt hafnarborginni Tangier í Marokkó. Hann flutti búferlum til Spánar og starfaði sem ímam í mosku í bænum Ripoll í norðanverðri Katalóníu. Að sögn spænskra fjölmiðla er talið að hann hafi tengst hryðjuverkanetinu al-Qaeda fyrir ellefu árum og fengið unga múslíma til að berjast í Írak. Komið hafa fram vísbendingar um að hann hafi seinna gengið til liðs við Ríki íslams, samtök íslamista sem náðu svæðum í Írak og Sýrlandi á sitt vald. Hann er sagður hafa fengið unga múslíma til liðs við samtökin og beitt til þess sömu aðferðum og al-Qaeda beitti í mörg ár.
The New York Times hefur eftir fólki sem kynntist ímaminum að ekkert í fari hans hafi bent til þess að hann hafi verið íslamisti og lagt á ráðin um hryðjuverk. Hann hafi virst ósköp venjulegur maður í klæðaburði, verið með stutt skegg og alltaf verið hæverskur og háttvís í framkomu. „Hann var mjög viðkunnanlegur, heillandi, virkilega kurteis, einum of sléttur og felldur,“ hefur dagblaðið eftir þrítugri konu sem ólst upp með elstu félögunum í hryðjuverkahópnum.
Hermt er að ímaminn hafi brýnt fyrir ungu mönnunum í hópnum að hegða sér með sama hætti og hann til að komast hjá því að grunsemdir vöknuðu um að þeir styddu öfgasamtökin og væru að undirbúa hryðjuverk. Flestir þeirra virtust vera ósköp „eðlilegir“ ungir menn, höfðu atvinnu, virtust hafa samlagast samfélaginu og töluðu katalónsku og spænsku, að sögn The New York Times.
Fréttaveitan AFP hafði eftir sérfræðingum í baráttunni gegn íslömskum öfgasamtökum að ungur aldur ódæðismannanna væri engin tilviljun því að samtökin legðu kapp á að fá unga menn til liðs við sig. Þeir segja að samtökin reyni einnig að mynda hópa sem tengist fjölskylduböndum til að minnka líkurnar á að meðlimirnir snúi baki við honum og segi frá áformum hans. Í hópnum sem gerði árásirnar voru bræður úr fjórum fjölskyldum.
Ímaminn beið bana í sprengingu sem varð fyrir mistök í húsi sem hópurinn notaði til sprengjugerðar í bænum Alcanar 16. ágúst. Einn hryðjuverkamannanna sem hafa verið handteknir hefur játað að hópurinn hafi undirbúið sprengjuárásir á þekktar byggingar í Barcelona. Lögreglan hefur fundið mikið magn sprengiefna og búnað til sprengjugerðar.
Sprengingin varð til þess að hópurinn breytti áformum sínum og ákvað að nota bíla til hryðjuverka. Daginn eftir óku þeir bifreiðum á fólk á Römblunni, fjölförnustu götu Barcelona, og í bænum Cambrils. Fimmtán manns létu lífið og rúmlega 120 særðust í árásunum.
Komið hefur fram í spænskum fjölmiðlum að Es Satty afplánaði fangelsisdóm fyrir fíkniefnasmygl á árunum 2010 til 2014 áður en hann gerðist ímam í Rippoll. Hann dvaldi í úthverfi Brussel í Belgíu frá janúar til mars í fyrra og óskaði nýlega eftir fríi frá störfum í moskunni til að snúa aftur til Marokkó.
Árásirnar hafa vakið umræðu á Spáni um hvort skortur á samstarfi spænskra og katalónskra löggæslustofnana hafi auðveldað hryðjuverkahópnum að leyna áformum sínum. Hermt er að samskipti stofnananna hafi verið stirð vegna deilna spænskra stjórnvalda og leiðtoga Katalóníu, sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað héraðsins frá Spáni.