Finnska lögreglan staðfesti fyrr í dag að maðurinn sem myrti tvær konur í hnífstunguárás í Turku fyrir rúmlega viku er Abderrahman Mechkah, rúmlega tvítugur hælisleitandi frá Marokkó.
Mechkah er fæddur árið 1994 en hann kom til Finnlands í fyrra og var umsókn hans um hæli hafnað.
„Lögregla hefur rætt við hinn grunaða árásarmann og hann er viljugur til að ræða við lögreglufulltrúa,“ er meðal þess sem kom fram í yfirlýsingu lögreglunnar.
Þar kom enn fremur fram að ekkert verði gefið upp um hvað hefur komið fram við yfirheyrslur á meðan rannsókn málsins stendur yfir.
Áður hafði lögreglan greint frá því að hún teldi líklegt að árásarmaðurinn væri ekki Mechkah. „Við teljum að hinn grunaði hafi veitt rangar upplýsingar við komuna til landsins,“ sagði lögreglan þá.
Sex hafa verið handteknir vegna árásarinnar en þremur þeirra hefur verið sleppt úr haldi.
Málið er rannsakað sem fyrsta hryðjuverkaárásin í Finnlandi.