Lést þegar tré féll á hjólhýsið

Allar sveitir í viðbragðsstöðu hafa verið kallaðar út í Texas …
Allar sveitir í viðbragðsstöðu hafa verið kallaðar út í Texas til að sinna leit og björgun. AFP

Yfirvöld í Texas hafa staðfest annað andlát vegna óveðursins sem nú geisar vegna fellibylsins Harvey. Kona nokkur var sofandi í hjólhýsi sínu þegar tré féll á hjólhýsið með þeim afleiðingum að hún lést að sögn lögregluforingja í Montgomery-héraði. Slökkviliðsmönnum tókst að bjarga eiginmanni konunnar að því er AP-fréttastofan greinir frá.

Þegar hafði verið greint frá minnst fimm dauðsföllum vegna fellibylsins.

Þá hefur Gregg Abbott, ríkisstjóri í Texas, virkjað allar sveitir í viðbragðsstöðu í ríkinu til leitar- og björgunarstarfa vegna fellibylsins og flóðanna sem honum fylgja. Alls munu því um 12.000 liðsmenn varðsveita standa vaktina við leit og björgun en þegar höfðu um 3.000 manns verið kallaðir út til að sinna verkefnum í byggðum nærri strandlengju Texas.

„Okkur ber skylda til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda líf,“ sagði ríkisstjórinn í dag, abc13 greinir frá. Yfirvöld í Houston segja að yfir 2.000 manns hafi verið bjargað frá flóðum í borginni.

Að sögn Renötu Sigurbergsdóttur Blöndal, sem stödd er í Houston og mbl.is ræddi við fyrr í kvöld, er strandgæslan farin af stað á bátum að banka upp á hjá fólki til að koma því í skjól. Ekki er veðrið allt gengið yfir og ætla má að það taki þó nokkurn tíma fyrir vatnið að hverfa.

Langt og strangt ferli að komast aftur á rétt ról

Enn geisa miklar rigningar, einkum í austurhluta Texas, og halda vatnavextir áfram að aukast. Að því er CNN greinir frá hafa björgunaraðgerðir gengið misvel, einkum þar sem erfitt reynist að hjálpa í þeim tilfellum þar sem fólk í mikilli örvæntingu reynir að flykkjast um borð í björgunarbáta.  

Mikið vatn er á götum Houston.
Mikið vatn er á götum Houston. Ljósmynd/aðsend

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tjáð sig um ástandið í dag og segir blasa við að það verði „langt og strangt ferli“ fyrir ríkið að komast aftur á rétt ról. Kveðst hann þó eiga von á því að landið verði „stærra, betra og sterkara en nokkru sinni fyrr,“ að því loknu.

Þá kveðst hann vonast til þess að Bandaríkjaþing bregðist hratt og örugglega við til að útvega fjármagn og bjargir til enduruppbyggingar eftir hamfarirnar.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert