Eigandi fataverksmiðjunnar Rana Plaza var í morgun dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir spillingu. Þetta er fyrsti dómurinn af mörgum en 1.138 manns létust þegar verksmiðjan hrundi til grunna í útjaðri Dhaka, höfuðborgar Bangladess, árið 2013.
„Þetta er í fyrsta skipti sem hann er dæmdur og fangelsaður,“ sagði saksóknari í málinu, Salahuddin Eskander, við fréttamann AFP. Vísar hann þar til eigandans, Sohel Rana.
Hrun verksmiðjunnar og mannfallið sem því fylgdi er eitt mesta slys iðnaðarsögunnar. Um 2.000 manns slösuðust.
Slysið vakti gríðarlega athygli víða um heim og var aðbúnaður verkafólksins gangrýndur harðlega. Þá vakti harmleikurinn ekki síst athygli á því að stór og þekkt tískumerki létu framleiða varning sinn í verksmiðjunni.
Dómstóll í Bangladess komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að Rana og fjörutíu til viðbótar yrðu ákærðir fyrir morð. Hópurinn er sakaður um að hafa falsað vottorð um að verksmiðjuhúsnæðið væri öruggt.
Þúsundir verkamanna voru neyddar til að fara inn í bygginguna við upphaf vaktar sinnar þrátt fyrir að margir þeirra hefðu bent á að sprungur væru komnar í bygginguna.