Hún var ofbeldisfullur hvítur rasisti en þegar hún kynntist svartri konu í fangelsi breyttist líf hennar til framtíðar.
Angela King var í slagtogi með hópi ofbeldisfullra ný-nasista sem létu hatur sitt á svörtu fólki og gyðingum óspart í ljós og einnig urðu samkynhneigðir fyrir barðinu á þeim.
King gekk um með skammbyssu hangandi í belti sínu, klæddist hermannaklossum og var húðflúruð í bak og fyrir með táknum nasista og öðrum áróðri öfgahópa.
„Ég var öll í húðflúrum, ég var með víkinga-húðflúr á brjóstinu, hakakross á löngutöng og Sieg Heil ritað innan á neðri vör,“ segir King í viðtali við BBC.
Á þessum tíma þorði King ekki að viðurkenna að hún væri samkynhneigð og kærastinn hennar á þessum tíma var í sama rasistagengi og hún.
Einn dag fór hópurinn saman á bar í Suður-Flórída og lét mikið fara fyrir sér. Drakk mikið og efndi til slagsmála. Einhverjum gesti á barnum varð það á að tjá sig um húðflúr sem kærasti King var með og það þurfti ekki meira til, segir King.
King og önnur kona í genginu tóku kærustu mannsins og börðu hana illa á klósetti barsins. Þau flúðu af vettvangi þegar fréttist að lögreglan væri á leiðinni.
Hún lýsir því hvernig þau hafi rætt möguleikann á kynþáttastríði í Bandaríkjunum og að ekkert væri athugavert við að berja á fólki sem ekki væri eins og þau. Í kjölfarið ákváðu þau að ræna verslun. Fyrst stóð til að ræna matvöruverslun en síðan kom í ljós að henni hafði verið lokað á meðan þau deildu um hver færi inn og fremdi ránið.
Þá lá leiðin að kynlífsverslun enda væri klám ekki til hagsbóta fyrir hvíta kynstofninn. Einn úr hópnum sló afgreiðslumanninn með byssu og stal síðan peningum úr afgreiðslukassanum, segir King en afgreiðslumaðurinn var gyðingur.
King, sem er elst þriggja systkina, var alin upp af íhaldssömum foreldrum í Suður-Flórída. Hún gekk í rándýran einkaskóla fyrir kristin börn og mætti til messu í hverri viku. En hún átti sér leyndarmál sem olli henni hugarangri.
„Strax í barnæsku leið mér eins og ég væri óeðlileg því ég laðaðist að fólki af sama kyni,“ segir King sem er 23 ára í dag. Hún hélt þessu leyndu fyrir öllum. „Ég vissi að ég yrði að halda þessu fyrir sjálfa mig. Móðir mín var vön að segja við mig: „Ég mun aldrei hætta að elska þig nema þú komir með svarta manneskju eða konu inn á heimilið.“
Þegar King var tíu ára gömul flutti fjölskyldan og hún hóf nám í almenningsskóla. Hún háði harða baráttu við aukakílóin og sjálfstraustið var ekki upp á marga fiska. Hún varð fyrir einelti í skóla – fyrst orðræðu en síðan breyttist hún í ofbeldi.
Þegar hún var 13 ára lyfti önnur stúlka blússu hennar upp fyrir framan allan bekkinn. „Ég var í æfingabrjóstahaldara og mér fannst ég algjörlega niðurlægð,“ segir King sem lét reiðina og hatrið, sem hún hafði byrgt svo lengi inni, brjótast út.
King réðst á stúlkuna og áttaði sig á því að ofbeldið veitti henni ákveðið vald sem hún hafði aldrei upplifað áður.
Þegar foreldrar hennar skildu bjuggu þær systur hjá móður sinni en bróðir þeirra hjá föður. Á svipuðum tíma fór hún að daðra við ný-nasisma og gekk til liðs við pönkara sem litu á ofbeldi og reiði sem sjálfsagðan hlut.
King fann sig vel í hópnum enda viðhorf hans í samræmi við það sem hún hafði alist upp við – hatur á svörtum og gyðingum. Lítil viðbrögð voru af hálfu skólayfirvalda þrátt fyrir að King hafi komið skoðunum sínum á framfæri hvenær sem tækifæri gafst. Foreldrar hennar settu sig heldur ekki upp á móti orðræðunni enda væri annað brot á tjáningarfrelsi einstaklingsins, sögðu þau en báðu hana um að hafa kannski ekki alveg svona hátt um skoðanir sínar.
Á unglingsárunum fór King að umgangast ný-nasista og gekk til liðs við öfgahóp hvítra rasista.
„Þeir sögðu mér að gyðingar hefðu átt þrælaskipin og að þeir hafi komið með svarta til Bandaríkjanna til þess að stofna hvíta kynstofninum í hættu,“ segir King. Hún segir að þetta sé auðvitað fáránleg skýring en þegar þú ert að reyna að passa inn í hópinn þá trúir þú öllu sem þér er sagt.
King var rekin úr skóla þegar hún var 16 ára gömul árið 1998 og fór að vinna á skyndibitastað. Stuttu síðar rak mamma King hana að heiman vegna vandamála sem fylgdu henni. Hún fékk því að gista hjá vinum eða svaf í bílum.
Um svipað leyti fór hún ásamt kærastanum til Chicago en hann var á flótta undan réttvísinni fyrir hatursglæp. Þau voru hins vegar handtekin fljótlega og hún sett í varðhald í Miami. Í fyrsta skipti á ævinni var hún í návígi við fólk með ólíkan bakgrunn og menningu.
Hún bjó sig undir það versta enda vissu flestir fyrir hvað hún stóð og hvers vegna hún var í haldi. En það sem gerðist var eitthvað sem enginn átti von á – að minnsta kosti ekki King. Hún kynntist svartri konu.
King var á reykingasvæðinu þegar kona frá Jamaica spurði hana hvort hún vildi spila. Þetta markaði upphaf að vinskap og í kjölfarið kynntist King fleiri konum frá Jamaica en flestar þeirra höfðu verið burðardýr eiturlyfjasmyglara.
Með þeirra aðstoð fór hún að taka ábyrgð á fyrri gjörðum sínum. Árið 1999 var hún dæmd í fimm ára fangelsi og flutt í sýslufangelsið tímabundið. Þegar hún var flutt í varðhald í Miami á nýjan leik voru margar af vinkonum hennar þar farnar í annað fangelsi.
„Allt í einu var stuðningsnetið horfið,“ segir hún og lýsir því hversu erfitt það hafi verið. En nýir fangar voru komnir í þeirra stað, þar á meðal kona frá Jamaica sem lagði fæð á King. Sú tilheyrði öðru ofbeldisgengi en svo fór að þær urðu vinir enda komu þær úr svipum aðstæðum þar sem hatrið og ofbeldið réði för.
Vináttan breyttist í ást. Eitthvað sem hvorug hafði átt von á því þetta var hjá báðum fyrsta ástarsambandið með manneskju af sama kyni. Ástin entist ekki en King kynntist fleira samkynhneigðu fólki eftir að hún var látin laus árið 2001 og komst að því að hún var ekki ein.
Hún hóf nám í félags- og sálfræði og í kjölfarið fór hún að taka þátt í starfi hópa sem berjast gegn öfgafólki og öfgaskoðunum.
Allt frá því hún yfirgaf fangelsið hefur hún smátt og smátt verið að fjarlægja rasista-húðflúrin enda ekki í samræmi við hug hennar í dag og hún tekur þátt í kynningarstarfi gegn rasisma ásamt öðru fyrrverandi öfgafólki.
King segir að atburðirnir í Charlottesville í Virginíu fyrr í mánuðinum hafi tekið verulega á enda glími hún við samviskubit yfir fyrri verkum sínum. Á sama tíma hafi hópurinn meira að gera en nokkru sinni fyrr við að kynna starf samtakanna Life After Hate.