Allar gjafir sem voru lagðar á reit til minningar um fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar á Römblunni í Barcelona 17. ágúst verða færðar á safn borgarinnar, að sögn borgarstjóra Barcelona. Alls létust 16 í árásinni og um 120 særðust þegar flutningabíl var ekið á gangandi vegfarendur á Römblunni. Síðar sama kvöld var fólksbíl ekið á vegfarendur í Cambrils. BBC greinir frá.
Gríðarlega margir hafa vottað samúð sína með því að leggja blóm og aðra muni, t.d. bangsa, borða og kerti, á staðinn þar sem árásin varð. Í gær var hafist handa við að hreinsa svæðið og færa munina til safnsins sem „mikill fengur er að“, segir Ada Colau, borgarstjóri Barcelona.