Þúsund hjálparbeiðnir á klukkustund

Níu eru látnir í óveðrinu í Texas og samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni berast yfir eitt þúsund símtöl á hverri klukkustund þar sem fólk óskar eftir aðstoð. Ástandið er víða skelfilegt í ríkinu og enn rignir látlaust. Flestir þeirra sem hafa látist eru búsettir í Harris-sýslu, þar sem Houston er.

Óttast er að mun fleiri hafi farist í óveðrinu en vitað er á þessari stundu. Áfram er spáð úrhelli í hluta Texas og Louisiana.

Um tvö þúsund manns hefur verið bjargað og mun fleiri þurfa á aðstoð að halda. Talið er að yfir 30 þúsund manns þurfi að yfirgefa heimili sín í Houston og víðar í Texas sem og Louisiana á næstu tveimur dögum.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur boðað komu sína til Texas í dag. Hann hefur heitið skjótum viðbrögðum við að koma íbúum ríkjanna tveggja sem verst hafa orðið úti til aðstoðar. Ljóst sé að það mun taka tíma en aðstoð verði veitt, bæði fjárhagsleg sem og önnur aðstoð sem þarf að veita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert