Vísbending er um að samsetning norska Stórþingsins verði með nokkuð öðru móti en áður eftir þingkosningarnar sem fram fara í Noregi 11. september hvað varðar afstöðu þingmanna til inngöngu í Evrópusambandið.
Fjallað er um þetta á fréttavefnum Rbnett.no. Til þessa hefur meirihluti þingmanna í Noregi verið hlynntur því að ganga í Evópusambandið ólíkt miklum meirihluta Norðmanna samkvæmt skoðanakönnunum um árabil.
Könnun sem gerð var af samtökunum Nei til EU, sem eru andvíg inngöngu í Evrópusambandið, bendir til þess að 43,2% þingmanna að loknum kosningunum verði andvígir því að ganga í sambandið en 22,5% hlynnt.
Könnunin miðast við núverandi samsetningu á Stórþinginu miðað við þingstyrk flokka en hún náði til 417 frambjóðenda. Ef miðað er við öll svör þeirra sögðust 259 andvígir inngöngu í Evrópusambandið en 70 hlynntir.